[sam_zone id=1]

Hylte/Halmstad með góðan sigur á Örebro

Hylte/Halmstad hélt til Örebro í gær og mætti þar liði heimakvenna. Jóna Guðlaug leikur með liði Hylte/Halmstad en hún lék áður fyrr með liði Örebro í nokkur ár og var því að mæta sínum gömlu félögum.

Leikurinn var hörkuskemmtun og ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt í þessum leik. Það var lítið sem skildi liðin að og inná milli sáust frábær tilþrif. Það þurfti því upphækkun til að skilja liðin að en þar voru það Hylte/Halmstad sem voru sterkari og sigruðu 25-27.

Næstu tvær hrinur voru svipaðar þar sem lítið bar á milli liðanna, góð spilamennska hjá báðum liðum og skiptust liðin á að vinna næstu hrinur. Hylte/Halmstad vann aðra hrinuna 23-25 áður en Örebro svaraði fyrir sig í næstu hrinu og vann hana 25-21.

Hylte/Halmstad voru hinsvegar með meira eftir á tankinum í fjórðu hrinu þar sem þær keyrðu yfir Örebro. Örebro sáu aldrei til sólar í hrinunni en Hylte/Halmstad unnu hana 25-14 og þar með leikinn 3-1.

Þessi leikur var sá síðasti í deildarkeppninni og skiptu úrslitin litlu máli fyrir lokastöðuna í deildinni. Þar sem liðin voru örugg í öðru og þriðja sæti deildarinnar.

Nú tekur úrslitakeppnin við en þá mætast einmitt þessi lið í 8-liða úrslitum og var þetta því einskonar general prufa fyrir það sem koma skal.

Jóna Guðlaug lék allan leikinn fyrir Hylte/Halmstad og var hún stigahæst á vellinum með 17 stig og var þar að auki valinn maður leiksins.

Nánari upplýsingar og tölfræði um leikinn má sjá hér.