[sam_zone id=1]

Marienlyst með bakið upp við vegg eftir tap gegn Aarhus

Ævarr Freyr Birgisson og félagar hans í Boldklubben Marienlyst tóku á móti Aarhus Elite í fyrsta leik liðanna í 8 liða úrslitum dönsku úrslitakeppninnar.

Bæði lið voru í eldlínunni um síðustu helgi þar sem úrslitahelgi bikarkeppninnar fór fram í Aarhus. Heimamenn frá Aarhus enduðu keppnina í fjórða sæti á meðan Marienlyst töpuðu úrslitaleiknum gegn Gentofte.

Bikarhelgin virtist sitja töluvert meira í Marienlyst en gestunum frá Aarhus og töpuðu þeir leiknum 0-3 (20-25, 23-25 og 20-25). Marienlyst komust aldrei almennilega í gang í leiknum og vantaði töluvert upp á alla þætti leiks þeirra.

Ævarr spilaði fyrstu tvær hrinur leiksins og átti ekki sinn besta leik. Hann skoraði 5 stig, þar af 4 úr sókn og 1 úr hávörn.

Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram í undanúrslitin svo Marienlyst eru komnir með bakið upp við vegg. Næsti leikur er á laugardaginn næstkomandi í Aarhus.