[sam_zone id=1]

Afturelding vann bikarmeistara KA

Afturelding mætti í kvöld liði KA í síðasta leik 8-liða úrslita Kjörísbikarsins.

Kvennalið Aftureldingar og KA hafa verið þau bestu í Mizunodeild kvenna þetta tímabilið og var því mikil spenna fyrir leik liðanna í Kjörísbikarnum. Veigamikil breyting hafði orðið á liðunum þar sem að Luz Medina færði sig yfir til Aftureldingar frá KA. Luz hefur verið besti uppspilari deildarinnar síðan hún kom til liðs við KA í upphafi árs 2019.

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með en um miðja fyrstu hrinu seig heimaliðið fram úr. Afturelding skoraði 8 stig í röð og gerði þar með út um hrinuna, sem lauk 25-18. KA gekk mun betur í annarri hrinu og náði 4-10 forystu. Aftur voru heimakonur þó sterkari eftir miðbik hrinu og lauk hrinunni 25-19 fyrir Aftureldingu.

Þriðja hrina bauð upp á meiri spennu en fyrri tvær hrinurnar og hélt KA í við Aftureldingu allt fram undir lok hrinunnar. Norðankonur náðu þó ekki að koma í veg fyrir sigur Aftureldingar en liðið vann 25-21 og tryggði þar með 3-0 sigur. Afturelding er því fjórða og síðasta liðið sem tryggir sér sæti í undanúrslitum Kjörísbikars kvenna. Áður voru lið HK, Þróttar Reykjavíkur og Þróttar Nes komin í undanúrslitin.

María Rún Karlsdóttir var öflug í liði Aftureldingar en hún skoraði 23 stig í leiknum. Hjá KA voru Helena Kristín Gunnarsdóttir og Gígja Guðnadóttir stigahæstar með 13 stig hvor.

Bikarmeistarar síðasta tímabils eru því úr leik og ljóst að nýir bikarmeistarar verða krýndir í mars. Dregið verður í viðureignir undanúrslitanna á föstudag og fer drátturinn fram í Íþróttamiðstöð ÍSÍ klukkan 12:15.