[sam_zone id=1]

Álftanes vann Hamar

Síðasti leikur 8-liða úrslita Kjörísbikars karla fór fram í kvöld þegar Álftnesingar sóttu Hamar heim.

Hamarsmenn léku á heimavelli í Hveragerði en gátu búist við ansi erfiðum leik gegn Mizunodeildarliði Álftaness. Hamar er hins vegar um miðja Benectadeild.

Heimamenn byrjuðu þó nokkuð vel og var fyrsta hrina jöfn. Álftanes vann hrinuna 21-25 eftir að jafnt hafði verið 19-19. Aðra hrinuna unnu gestirnir þó nokkuð auðveldlega, 15-25, og voru í ansi góðum málum, 0-2 yfir. Þriðja hrina var æsispennandi og náðu Hamarsmenn að knýja fram 25-23 sigur sem lengdi leikinn nokkuð.

Gleði Hvergerðinga dugði þó skammt þar sem að Álftanes vann fjórðu hrinuna sannfærandi, 17-25, og leikinn þar með 1-3. Álftanes er því fjórða og síðasta liðið sem tryggir sér sæti í undanúrslitum Kjörísbikars karla. Úrslitahelgin fer fram dagana 13.-15. mars í Digranesi. Auk Álftaness eru lið HK, Aftureldingar og Þróttar Nes komin í undanúrslitin.

Dregið verður í viðureignir undanúrslitanna næstkomandi föstudag, þann 28. febrúar, en 8-liða úrslitum kvenna lýkur á miðvikudag með stórleik Aftureldingar og KA.