[sam_zone id=1]

KA slapp með skrekkinn gegn Álftanesi

KA tók á móti Álftnesingum í Mizunodeild kvenna í kvöld.

Leikurinn var sá eini í Mizunodeildunum í kvöld en fjölmargir leikir fara fram um helgina. KA var enn á toppi deildarinnar með 30 stig þrátt fyrir sitt fyrsta tap gegn Aftureldingu í síðasta leik. Álftanes sat hins vegar á botni deildarinnar með einungis þrjú stig.

Lið Álftaness kom sterkt til leiks og vann fyrstu tvær hrinur leiksins eftir mikla baráttu. Fyrstu hrinunni lauk 25-27 en KA missti þá niður sex stiga forystu sem liðið náði um miðja hrinuna. Aðra hrinuna vann Álftanes 22-25 og leiddu því óvænt 0-2.

KA breytti aðeins til í sínu liði og kom til baka í næstu tveimur hrinum. Þær unnust báðar 25-20 og þurfti því að grípa til oddahrinu. Þar reyndust heimakonur sterkari og vann KA leikinn 3-2. Þær ná því í tvö af þremur mögulegum stigum og halda Aftureldingu í öruggri fjarlægð í bili.

Helena Kristín Gunnarsdóttir var stigahæst í liði KA með 22 stig en Paula Del Olmo Gomez kom næst með 15 stig. Sladjana Smiljanic var öflug í liði Álftnesinga og var stigahæst allra með 27 stig. Astrid Ericsson bætti við 11 stigum fyrir gestaliðið.

KA er nú með 32 stig eftir 12 leiki og skammt á eftir þeim kemur lið Aftureldingar, með 26 stig eftir 11 leiki. Bæði lið eiga leiki um helgina en KA mætir HK á laugardag á heimavelli. Afturelding mætir Þrótti í Neskaupstað tvívegis um helgina og eftir helgi munu bæði lið því hafa leikið 13 af 15 leikjum sínum. Úrslit helgarinnar gætu því ráðið ansi miklu í toppbaráttunni.

Álftanes mætir Þrótti Reykjavík næsta miðvikudag en sá leikur fer fram í Laugardalshöllinni. Möguleikar Álftnesinga á sæti í úrslitakeppninni eru orðnir ansi litlir en liðið þarf fullt hús stiga úr síðustu fjórum leikjum sínum. Þá þarf liðið einnig að treysta á að HK tapi síðustu þremur leikjum sínum.