[sam_zone id=1]

Afturelding vann á Akureyri

KA og Afturelding mættust í toppslag Mizunodeildar kvenna í kvöld og fór leikurinn fram á Akureyri.

Lið KA var fyrir leikinn ósigrað í efsta sætinu en liðið hafði unnið alla tíu leiki sína og var með 29 stig. Afturelding kom þar skammt á eftir með 24 stig en liðið hafði einungis tapað stigum gegn KA. Norðankonur gátu farið ansi langt með að tryggja sér deildarmeistaratitilinn með sigri en Afturelding gat með sigri opnað baráttuna upp á gátt.

Afturelding byrjaði leikinn nokkuð vel og vann fyrstu hrinuna 23-25 eftir spennandi lokakafla. Mosfellingar tóku svo öll völd í annarri hrinu og unnu hana sannfærandi, 10-25. KA vaknaði þó til lífsins eftir þessa útreið og varð þriðja hrinan hnífjöfn og æsispennandi. Hana vann KA 32-30 og því var haldið í fjórðu hrinu.

Fjórða hrinan var nokkuð jöfn en KA hafði þó allt naumt forskot. Þær unnu hrinuna 25-19 og knúðu fram oddahrinu. Þar náði Afturelding 2-7 forystu sem lagði grunninn að sigri gestanna. Afturelding vann hrinuna 7-15 og leikinn 2-3. Afturelding er því fyrsta liðið til að vinna KA á þessu tímabili og minnkar muninn á toppi deildarinnar í fjögur stig.

Paula Del Olmo Gomez skoraði 20 stig fyrir KA en næst kom Helena Kristín Gunnarsdóttir með 14 stig. Thelma Dögg Grétarsdóttir var stigahæst allra en hún skoraði 22 stig fyrir Aftureldingu. María Rún Karlsdóttir bætti við 19 stigum og Ana Maria Vidal Bouza skoraði 16 stig.

KA er enn á toppnum með 30 stig en Afturelding er með 26 stig. Norðankonur eru því enn í bílstjórasætinu en þó má ekki margt fara úrskeiðis. KA leikur næst á heimavelli gegn Álftanesi þann 12. febrúar en Afturelding mætir Þróttir í Neskaupstað tvívegis dagana 15. og 16. febrúar.