[sam_zone id=1]

Marienlyst komnir í þriðja sæti eftir sigur á Amager

Boldklubben Marienlyst, lið Ævarrs Freys Birgissonar, heimsóttu Amager VK í gær í dönsku úrvalsdeildinni.

Marienlyst áttu erfitt með móttökuna í upphafi leiks en héldu þó í við Amager fram undir miðja fyrstu hrinu. Þá fóru hlutirnir að ganga betur hjá Marienlyst sem skoruðu 6 stig í röð og leiddu 21-15. Þeir unnu hrinuna að lokum 25-18.

Sterkur sóknar- og hávarnarleikur Marienlyst skilaði þeim stórsigri í annarri hrinunni, 25-13.

Liðin fylgdust að í þriðju hrinunni en Amager voru þó alltaf skrefi á undan. Marienlyst tókst nokkrum sinnum að minnka muninn niður í eitt stig en það dugði ekki til og unnu Amager hrinuna 22-25.

Marienlyst fóru illa með Amager í upphafi fjórðu hrinunnar og leiddu mest með 13 stigum, í stöðunni 18-5. Marienlyst unnu hrinuna 25-13 og leikinn þar með 3-1.

Ævarr lék allan leikinn á kantinum og skoraði hann 11 stig ásamt því að vera með 76% jákvæða móttöku og 41% fullkomna.

Marienlyst eru eftir leikinn jafnir Nordenskov í 3.-4. sæti deildarinnar með 34 stig eftir 16 leiki. Næsti leikur liðsins er gegn Middelfart VK á föstudaginn næstkomandi.

Myndina tók Kim Leerskov