[sam_zone id=1]

KA vann Aftureldingu á heimavelli

KA mætti Aftureldingu í Mizunodeild karla í dag en liðin eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Fyrir leik liðanna var KA í 4. sæti deildarinnar með 15 stig eftir 11 leiki en Afturelding í 5. sætinu með 12 stig eftir 11 leiki. KA gat því komist í ansi góða stöðu með sigri en alls eru 15 leikir spilaðir í deildarkeppninni.

Afturelding byrjaði vel og léku sér að norðanmönnum á þeirra eigin heimavelli. Forystan jókst hratt og að lokum vann Afturelding hrinuna 10-25. Mikil spenna var þó í annarri hrinu og vann KA hana 25-20 eftir frábæran lokakafla.

Leikurinn virtist snúast algjörlega við eftir að KA jafnaði 1-1 og þriðja hrinan var keimlík þeirri fyrstu. Að þessu sinni var það þó lið KA sem valtaði yfir Aftureldingu og vann 25-11. KA vann svo fjórðu hrinuna 25-21 og tryggði sér gríðarlega mikilvægan 3-1 sigur. KA er nú með 18 stig, líkt og Álftanes, en Afturelding er enn í 5. sæti með 12 stig.

Migeul Mateo Castrillo var stigahæstur í liði KA með 18 stig en Alexander Arnar Þórisson bætti við 15 stigum. Sigþór Helgason skoraði 23 stig fyrir Aftureldingu og Quentin Moore kom næstur með 13 stig.

Næsti leikur KA verður heimaleikur gegn HK þann 15. febrúar og sama dag mætir Afturelding liði Þróttar Nes í Neskaupstað. Bæði lið eiga nú einungis þrjá leiki eftir og þarf allt að ganga upp hjá Aftureldingu ætli liðið sér að ná KA eða Álftanesi.