[sam_zone id=1]

Lið KA enn ósigrað eftir 10 leiki

Þróttur Reykjavík tók á móti toppliði KA í Kennaraháskólanum í dag.

KA hefur verið á toppi Mizunodeildar kvenna allt tímabilið og voru enn taplausar fyrir leik dagsins. Þróttur var hins vegar í 3. sæti deildarinnar og freistaði þess að nálgast KA og Aftureldingu enn frekar. Þróttur hefur verið á góðri siglingu og vann meðal annars 3-1 sigur á HK í vikunni.

KA byrjaði leikinn í dag af miklum krafti og var fljótlega komið 1-10 yfir. Þróttarar minnkuðu muninn þó smám saman og voru síðustu stig hrinunnar æsispennandi. KA vann þó 23-25 eftir að Þróttur hafði náð 22-20 forystu.

Önnur hrina fór fram með svipuðum hætti þar sem að KA byrjaði mun betur en Þróttur komst á gott skrið undir lok hrinunnar. Staðan var 16-23 fyrir KA þegar lokaáhlaup Þróttar hófst og jöfnuðu þær 24-24. KA tryggði sér þó 24-26 sigur og leiddi leikinn 0-2.

Þriðja hrinan byrjaði eins og hinar tvær en í þetta skiptið kom áhlaup Þróttar aldrei. KA vann hrinuna því örugglega, 13-25, og vann leikinn 0-3. Katla Hrafnsdóttir skoraði 13 stig fyrir Þrótt Reykjavík en Paula Del Olmo Gomez skoraði 19 stig fyrir KA.

Lið KA hefur unnið alla 10 leiki sína í deildinni og er með 29 stig af 30 mögulegum á toppi deildarinnar. Þróttur Reykjavík er enn í 3. sæti deildarinnar með 19 stig en þar á milli kemur Afturelding með 24 stig. Þróttur R hefur spilað 12 leiki en toppliðin tvö einungis 10 leiki hvort.

KA fær Aftureldingu í heimsókn þann 5. febrúar næstkomandi og geta norðankonur nánast tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri þar. Vinni Afturelding verður lokaspretturinn hins vegar æsispennandi. Þróttur Reykjavík spilar ekki fyrr en 19. febrúar þegar liðið mætir Álftanesi á heimavelli.