[sam_zone id=1]

Marienlyst unnu Nordenskov á heimavelli

Ævarr Freyr Birgisson og félagar í Boldklubben Marienlyst tóku á móti Nordenskov UIF í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Marienlyst voru í fjórða sæti deildarinnar fyrir leikinn og Nordenskov í því öðru svo það mátti búast við hörkuleik. Liðin munu mæta hvoru öðru í undanúrslitum dönsku bikarkeppninnar eftir þrjár vikur svo leikmenn og þjálfarar voru spenntir að sjá hvernig liðin stæðu gagnvart hvoru öðru.

Marienlyst hófu leikinn vel og leiddu 6-2 í fyrstu hrinu. Nordenskov minnkuðu muninn og voru yfir um miðja hrinu, 13-15. Liðin fylgdust að allt til loka hrinunnar en heimamenn í Marienlyst tóku hana með minnsta mun, 25-23.

Önnur hrinan var ekki eins spennandi þar sem Marienlyst tóku forystuna í upphafi hrinu og létu hana aldrei af hendi. Þeir unnu hrinuna 25-19 og því komnir í kjörstöðu til að vinna leikinn.

Nordenskov gáfust ekki upp þrátt fyrir að vera að tapa 0-2 og leiddu þriðju hrinuna með 2-3 stigum allt þar til í stöðunni 17-19. Þökk sé frábærum varnar- og sóknarleik Marienlyst skoruðu þeir 7 stig í röð og unnu hrinuna að lokum 25-20 og leikinn þar með 3-0.

Ævarr spilar kant með liði Marienlyst og átti ágætis leik. Hann skoraði 8 stig og voru þau öll úr sókn.

Marienlyst eru sem fyrr í fjórða sæti deildarinnar með 31 stig eftir 15 leiki, einungis þremur stigum á eftir öðru sætinu. Næsti leikur þeirra er gegn Amager á útivelli næstkomandi sunnudag.

Kim Leerskov tók myndina.