[sam_zone id=1]

HK aftur á toppinn

Álftanes og HK mættust í Mizunodeild karla í kvöld en leikurinn fór fram á heimavelli Álftnesinga.

Fyrir leikinn voru liðin í 2. og 3. sæti deildarinnar. HK var í 2. sæti með 25 stig eftir 11 leiki og Álftanes í 3. sætinu með 18 stig eftir 11 leiki. HK og Þróttur Nes hafa verið í mikilli baráttu um toppsætið og gat HK náð því aftur með sigri. Álftanes var skammt undan toppliðunum tveimur en KA og Afturelding voru einnig skammt undan í 4. og 5. sætinu.

Leikurinn var hnífjafn til að byrja með og var munurinn á liðunum aldrei meiri en þrjú stig í fyrstu hrinunni. Hrinan fór þar að auki í upphækkun sem virtist engan endi ætla að taka. Að lokum vann HK hrinuna 34-36 og tók 0-1 forystu í leiknum.

Önnur hrina var einnig jöfn en HK hafði þó yfirhöndina mestan hluta hennar. Gestirnir unnu hana 22-25 og leiddu 0-2. Þriðja hrinan var svo í höndum HK-inga allan tímann sem leiddu allt frá upphafi. Álftanes komst á fínt skrið um miðja hrinuna en það dugði ekki og HK vann 17-25. HK vann því 0-3 á hirti öll þrjú stigin.

Mason Casner var stigahæstur í liði Álftaness með 9 stig en Matthew Gibson kom næstur með 7 stig. Andreas Hilmir Halldórsson og Valens Torfi Ingimundarson voru öflugir hjá HK en Andreas skoraði 18 stig og Valens bætti við 16 stigum.

HK-ingar eru þar með komnir aftur í toppsæti deildarinnar og eru einu stigi á undan Þrótturum úr Neskaupstað. Lið Álftaness er hins vegar í ansi þéttum pakka um miðja deildina og getur KA jafnað þá að stigum um helgina.

Næsti leikur Álftnesinga verður heimaleikur gegn Vestra þann 15. febrúar en HK mætir KA á Akureyri sama dag. Lið deildarinnar hafa nú ýmist spilað 11 eða 12 leiki af þeim 15 sem hvert lið spilar og því er spennan farin að magnast. Deildarkeppninni lýkur 26. mars og þá tekur úrslitakeppni við. Kjörísbikarinn heldur einnig áfram í febrúar og verður leikið til úrslita þar stuttu áður en deildarkeppni lýkur.