[sam_zone id=1]

Þróttur R í góðri stöðu eftir sigur gegn HK

Tveir leikir fóru fram í Mizunodeild kvenna í kvöld og þar af var slagur Þróttar R og HK um 3. sæti deildarinnar.

Annars vegar mættust Þróttur R og HK í kvöld en hins vegar voru það Afturelding og Álftanes sem mættust í Mosfellsbæ. Afturelding hefur verið í 2. sæti deildarinnar í nokkurn tíma og eltir þar topplið KA. Álftnesingar sitja hins vegar á botni deildarinnar með einungis þrjú stig.

Afturelding mætti til leiks af miklum krafti og tók strax afgerandi forystu í leiknum. Þær náðu strax 9-1 forystu og unnu fyrstu hrinu 25-12. Önnur hrina fór eins fram en Álftanes hélt þó aðeins betur í við heimakonur. Hrinunni lauk með 25-16 sigri Aftureldingar sem leiddi þar með 2-0.

Þriðja hrina var algjör einstefna líkt og sú fyrsta og lauk henni einnig með 25-12 sigri Aftureldingar. María Rún Karlsdóttir var stigahæst í leiknum en hún skoraði 18 stig fyrir Aftureldingu. Þórdís Guðmundsdóttir skoraði fjögur stig fyrir Álftanes.

Leikur Þróttar R og HK var meira spennandi en það var þó ekki að sjá í fyrstu hrinu leiksins. Heimakonur í Þrótti byggðu jafnt og þétt upp örugga forystu og unnu hrinuna 25-12. Lið HK kom þó til baka strax í annarri hrinu og vann hana 22-25 eftir skemmtilega og spennandi hrinu. Þróttur hafði náð 7-0 forystu í upphafi hrinunnar en HK átti frábæra endurkomu um miðja hrinu.

Þriðja hrina var einnig spennandi en Þróttur hafði þó nokkuð örugga forystu stærstan hluta hrinunnar. Eftir endurkomu HK í annarri hrinu var þó ekkert öruggt en Þróttur vann hrinuna 25-21 og leiddi 2-1. Jafnt var í fjórðu hrinu þar til um miðja hrinu en í stöðunni 14-13 fór Katrín Sara Reyes í uppgjöf fyrir Þrótt og lauk leiknum í uppgjafarreitnum. Þróttarar skoruðu því síðustu 11 stig leiksins og unnu hrinuna 25-13. Þær unnu leikinn þar með 3-1.

Eldey Hrafnsdóttir og Cristina Oliveira Ferreira voru stigahæstar í liði Þróttar með 11 stig hvor en Laufey Björk Sigmundsdóttir og Sara Ósk Stefánsdóttir skoruðu 13 stig hvor fyrir HK. Þróttur er nú í 3. sæti deildarinnar með 19 stig eftir 11 leiki en HK er sæti neðar með 15 stig eftir 12 leiki.

Rétt ofan við Þróttara er lið Aftureldingar en Mosfellingar eru með 24 stig eftir 10 leiki. Á toppnum situr lið KA með 26 stig eftir 9 leiki en Álftanes er sem fyrr á botni deildarinnar með þrjú stig eftir 10 leiki. Þróttur Nes er í 5. sætinu með sex stig eftir 10 leiki.

Þróttarar eiga leik strax á laugardag þegar liðið fær topplið KA í heimsókn. KA og Afturelding mætast svo í toppslag þann 5. febrúar næstkomandi. Næstu leikir Álftnesinga og HK eru einnig gegn KA sem spilar því ansi marga leiki næstu daga. Álftanes sækir KA heim 12. febrúar en HK fer norður 15. febrúar.