[sam_zone id=1]

Hylte/Halmstad með öruggan sigur í sænsku úrvalsdeildinni

Hylte/Halmstad mætti í gær Lindesberg í sænsku úrvalsdeildinni í blaki. Lið Hylte/Halmstad byrjaði tímabilið frekar illa en hefur í síðustu leikjum verið að ná í betri úrslit og er að fikra sig upp töfluna.

Leikurinn um helgina var eign Hylte/Halmstad frá upphafi til enda. Lið Lindesberg átti ekki möguleika og var himinn og haf á milli liðanna í leiknum. Munurinn var mestur í uppgjöfum og hávörn en Hylte/Halmstad skoraði 14 stig beint úr uppgjöf og 13 stig komu eftir hávarnir hjá liðinu.

Skemmst er frá því að segja að leikurinn var öruggur allan tímann en Hylte/Halmstad vann fyrstu hrinuna 25-8.
Lindesberg sýndi smá lífsmark í annari hrinu en þrátt fyrir það var hrinan aldrei í hættu hjá Hylte/Halmstad sem vann 25-19.
Þriðja hrinan var síðan eins og sú fyrsta þar sem Hylte/Halmstad valtaði yfir Lindesberg og vann hrinuna 25-10 og leikinn þar með 3-0.

Hylte/Halmstad fór með sigrinum upp fyrir Gislaved í fjórða sæti deildarinnar en liðið er einungis þremur stigum frá þriðja sætinu og á leik til góða á önnur lið í kringum sig.

Jóna Guðlaug var í byrjunarliðinu í leiknum en lék einungis fyrstu hrinu leiksins. Hún skoraði eitt stig í hrinunni og kom það beint úr uppgjöf.

Nánari upplýsingar um tölfræði leiksins má finna hér.