[sam_zone id=1]

Þróttur Nes með sigur á Vestra í hörkuleik

Þróttur Nes og Vestri mættust í annað sinn á tveimur dögum í Mizunodeild karla. Þróttur Nes vann fyrri leik liðanna í gær 3-1 og unnu Þróttur aftur góðan 3-1 sigur í dag.

Þróttur Nes hóf leikinn í dag af miklum krafti og eins og í gær unnu þeir fyrstu hrinu leiksins 25-13.
Vestramenn hrukku þó í gang eftir það og fóru að spila gott blak. Bæði lið sýndu góða takta í annari hrinu en það voru þó gestirnir sem voru öflugri og unnu þeir aðra hrinuna 25-21 og jöfnuðu þar með leikinn.

Bæði lið héldu áfram að sýna góða takta í leiknum og voru næstu tvær hrinur frábær skemmtun þar sem bæði lið voru staðráðin í að vinna sigur. Það voru þó Þróttur Nes sem voru sterkari í lok hrinanna og unnu þeir báðar hrinur með minnsta mun 25-23 og aftur 25-23.

Þeir tryggðu sér þar með góðan 3-1 sigur og taka öll 3 stigin með úr leiknum. Vestri geta þó verið sáttir með sinn leik þar sem þeir veittu liði Þróttar Nes góða samkeppni og hefðu með smá heppni alveg getað tekið öll 3 stigin með sér aftur á Ísafjörð.

Atkvæðamestur í leiknum í dag var Jesus Montero leikmaður Þróttar en hann skoraði 24 stig í dag, hjá Vestra var það Juan Manuel Roja sem lét mest að sér kveða með 17 stig þar af 6 stig beint úr uppgjöf.

Þróttur Nes. fór með sigrinum upp í efsta sæti deildarinnar með 27 stig en HK kemur þar á eftir með 25 stig og leik til góða.
Vestri er sem fyrr á botni deildarinnar með 5 stig.

Nánari tölfræði úr leiknum má sjá hér.