[sam_zone id=1]

Ísland ekki með á EM ?

Blakfréttir settust á dögunum niður með Stefáni Jóhannessyni, varaformanni BLÍ og formanni Landsliðsnefndar. Okkur langaði að vita hvað er framundan hjá landsliðunum.

Hvað er framundan hjá A landsliðunum á árinu?

“Á þessari stundu eru engin verkefni sem liggja fyrir hjá A liðunum.

Við þurfum að taka ákvörðun ekki seinna en í næstu viku, hvort við sendum A liðin okkar á EM. EM verður með sama sniði og síðast, leikið í fjögurra liða riðlum, heima og að heiman. Tímasetningar liggja fyrir og verður leikið í ágúst og september. Þetta keppnisfyrirkomulag er erfitt fyrir okkur vegna mikilla ferðalaga og þarmeð kostnaðar, auk þess sem undirbúningur liðanna þarf að fara fram í júlí og ágúst. Á þessari stundu myndi ég segja að það séu frekar litlar líkur á að við tökum þátt. En þetta er auðvitað ákvörðun sem stjórn BLÍ þarf að taka.

EM 2019 reyndist okkkur mjög dýrt og fjárhagur BLÍ snérist til mun verri vegar eftir það ævintýri. Við komumst einnig að því að allnokkrir af okkar sterkustu leikmönnum vildu ekki taka þátt í verkefninu. Það voru mikil vonbrigði fyrir okkur sem að þessu stóðum. Við getum hinsvegar ekki gagnrýnt fólk fyrir að segja sig frá verkefnum. Ástæðurnar geta verið fjölmargar en í grunninn hefur BLÍ ekki náð að skapa nægjanlega góða umgjörð um liðin og þá fyrst og fremst fjárhagslega. Leikmenn þurfa enn að greiða fyrir hluta af ferðakostnaði og við þurfum að koma hreyfingunni útúr þvi ástandi sem fyrst. Það er því miður ekki í sjónmáli en við munum vinna áfram í þá átt. Það var hinsvegar margt jákvætt við þátttökuna í EM og ekki hvað síst að fá heimaleiki og geta þarmeð sýnt íslendingum gæðablak.“

Smáþjóðasamstarfið í vanda ?

“Smáþjóðakeppnin, sem verið hefur hryggjarstykkið í okkar landsliðsstarfi undanfarin 20 ár, hefur ekkert vægi lengur hjá CEV. Keppnin var áður hluti af Evrópukeppninnni, fyrsta stigið, þar sem góður árangur fleytti liðum áfram í næstu umferð. Þetta hefur nú breyst og tengingin við Evrópukeppnina er ekki lengur til staðar. Þátttaka Íslands í EM er því einungis í boði með því að taka þátt í því sem ég nefndi hér áðan, að fara beint í riðlakeppnina.

Þessi breyting hefur svo haft neikvæð áhrif á samstarf smáþjóðanna sem eru að upplifa tilvistarkreppu. Vonandi finnst góð lausn á þessu innan tíðar. Kannski liggur framtíð okkar í nánara samstarfi við nágranna okkar í Færeyjum, Skotlandi og Englandi svo ég nefni dæmi.“

Hvað er framundan hjá yngri landsliðunum ?

“Við höfum haldið fast í samstarfið við NEVZA þjóðirnar og teljum að það henti okkur ágætlega á þessari stundu. Þetta er fastur punktur í tilverunni hjá okkar yngri leikmönnum. Ég reikna því fastlega með að við munum halda áfram að starfa með NEVZA þjóðunum í þessum málum. Því miður eru ekki verkefni fyrir fullorðna í boði!

Smáþjóðirnar hafa svo líka verið með verkefni fyrir yngri landslið og við erum að horfa til þess núna. BLÍ hefur ákveðið að senda lið til keppni í U19 kvenna (árgangur 2002 og yngri) og U20 pilta (árgangur 2001 og yngri) . Keppnin mun fara fram í maí og fyrir liggur að ísland mun sjá um riðil í U19 kvenna. Tímasetningin hefur ekki verið ákveðin en verið er horfa til seinni hluta maí mánaðar.

Ég get haldið endalaust áfram um þennan málaflokk en aðalmálið hjá okkur núna er að ná betri tökum á fjármálunum, fá meiri pening inn í landsliðsstarfið. Við viljum geta boðið uppá gott umhverfi fyrir landsliðsfólk og það hefur auðvitað margt áunnist þar. Framlög úr afrekssjóði hafa fjórfaldast undanfarin 4 ár. Forgangsröðunin hefur verið sú að leggja áherslu á umgjörðina, ráða góða þjálfara, aðstoðarþjálfara, sjúkraþjálfara, styrktarþjálara osfrv. Þá hefur BLÍ lagt mikla áherslu á að jafna aðstöðumun leikmanna eftir búsetu. Það er kostnaðarsamt að halda úti æfingum þegar leikmenn koma úr ýmsum áttum. “

Ef það verður ekkert af verkefnum á árinu, munu liðin fá einhverjar æfingahelgar og æfa ?

“Já, við munum finna önnur verkefni fyrir liðin ef við förum ekki á EM”

Hver er staðan á þjálfaramálum hjá karlalandsliðinu?

“Ekkert ákveðið eins og er. Munum skoða málin um leið og skýrist meira með verkefni liðsins. “