[sam_zone id=1]

Calais með góðan útisigur í Frakklandi

Calais hélt í gær til höfuðborgar Frakklands og lék gegn liði Charenton. Leikurinn hafði mikla þýðingu fyrir bæði lið og þá sérstaklega Calais sem eru í harðri baráttu um að tryggja sér þriðja sæti riðilsins sem gefur sæti í úrslitakeppninni.

Það voru þó heimamenn í Charenton sem byrjuðu leikinn betur og voru þeir með frumkvæðið framan af í fyrstu hrinu. Calais átti í vandræðum með sterkar uppgjafir heimamanna og kom það niður á sóknarleik liðsins. Charenton voru komnir í góða stöðu 24-22 yfir, Calais gáfust þó ekki upp og með mikilli baráttu náðu þeir að skora fjögur stig í röð og sigra hrinuna 26-24.

Önnur hrinan var mjög jöfn og aldrei mikill munur á liðunum. Bæði lið skiptust á að hafa forystu í hrinunni, en það voru þó Calais sem voru sterkari þegar á reyndi og unnu þeir aðra hrinuna 27-25 og því komnir í vænlega stöðu í leiknum.

Calais virtist hafa fengið smá aukaorku við þetta þar sem þeir voru alltaf skrefinu á undan Charenton í þriðju hrinunni. Calais náði fljótt góðu forskoti sem þeir létu ekki af hendi og unnu þeir þriðju hrinuna 25-20 og þar með leikinn 3-0.

Gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Calais sérstaklega í ljósi þess að helstu keppinautar þeirra í CNVB töpuðu sínum leik í þessari umferð. Calais er nú með 23 stig í þriðja sætinu, en Harnes og CNVB koma þar á eftir með 17 og 16 stig en eiga bæði leik til góða.

Hafsteinn Valdimarsson var í byrjunarliði Calais í leiknum og lék allan leikinn.

Nánari upplýsingar um úrslit og stöðu í deildinni má sjá hér.