[sam_zone id=1]

Heimasigrar hjá Þrótti Nes og KA

Tveir leikir fóru fram í Mizunodeild karla í dag en leikið var á Akureyri og í Neskaupstað.

Þróttur Nes mætti Vestra í fyrri leik dagsins. Lið Vestra hefur verið á betra skriði í undanförnum leikjum eftir erfiða byrjun en Þróttur Nes er rétt á eftir toppliði HK. Þróttur byrjaði leikinn af miklum krafti og vann fyrstu hrinu leiksins auðveldlega, 25-13. Vestri gerði aðeins betur í annarri hrinu en Þróttur vann hana þó einnig, 25-20.

Í þriðju hrinu var spennan töluvert meiri og náðu gestirnir að vinna hrinuna 23-25. Heimamenn gerðu þó betur í fjórðu hrinu og unnu hana 25-18. Þeir unnu leikinn því 3-1 og náðu í öll þrjú stigin. Miguel Angel Ramos Melero átti frábæran leik fyrir Þrótt Nes og skoraði 23 stig en Juan Manuel Escalona Rojas var einnig öflugur og skoraði 20 stig fyrir Vestra.

Í seinni leiknum tóku KA á móti Álftanesi. Síðast þegar liðin mættust vann Álftanes 3-0 sigur á heimavelli sínum og þurftu bæði lið á stigum að halda í dag. Álftanes er rétt á eftir toppliðum Þróttar Nes og HK en KA er í harðri baráttu við Aftureldingu um 4. sæti deildarinnar.

Álftanes byrjaði leikinn vel og vann fyrstu hrinu 22-25 eftir að hafa leitt frá byrjun. KA kom til baka í annarri hrinu og vann nokkuð sannfærandi, 25-21, en í þriðju hrinu virtust KA ætla að valta yfir gestina. Þeir náðu mest 9 stiga forystu en Álftnesingar minnkuðu muninn í þrjú stig undir lokin. Nær komust þeir þó ekki og KA vann aftur 25-21.

KA tók forystuna fljótlega í fjórðu hrinunni og héldu þeir allan tímann þægilegu forskoti. Þeir unnu hrinuna að lokum 25-18 og tryggðu sér því 3-1 sigur. Miguel Mateo Castrillo var sem fyrr lykillinn að sóknarleik KA og skoraði 28 stig en Alexander Arnar Þórisson bætti við 18 stigum. Hjá Álftanesi var Mason Casner stigahæstur með 16 stig og Valgeir Valgeirsson skoraði 14 stig.

Þróttur Nes er nú í 2. sæti með 24 stig, einu stigi á eftir HK. KA er með 15 stig í 4. sætinu eftir sigur dagsins og Álftanes er þar skammt undan með 18 stig. Öll lið deildarinnar hafa spilað 11 leiki og því einungis fjórir leikir eftir hjá hverju liði. Þróttur Nes og Vestri mætast aftur á morgun en Álftanes mætir HK á fimmtudag á sinum heimavelli. KA fær Aftureldingu í heimsókn næstu helgi og fer leikurinn fram á sunnudag.