[sam_zone id=1]

Þróttur R. með góðan sigur á Álftanesi

Þróttur R. hélt á Álftanes í kvöld og tók þar á móti heimakonum. Bæði lið þurftu nauðsynlega á sigrinum að halda en Álftanes þurfti sigur til að eiga möguleika á að ná inn í úrslitakeppnina á meðan Þróttur R. er í hörkukeppni við HK um þriðja sæti deildarinnar.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir heimakonur þar sem Þróttur voru mun sterkari í byrjun og náðu fljótt góðri forystu. Uppgjafir Þróttara voru að valda heimakonum vandræðum sem áttu þar með erfitt að ná almennilegri sókn. Þróttur hélt forystunni allt til enda og unnu hrinuna 25-16.

Önnur hrinan var jöfn til að byrja með og var allt annað að sjá lið Álftanes í byrjun þessarar hrinu. Móttakan var betri og því gekk sóknaleikurinn einnig betur hjá liðinu. Um miðja hrinu náðu gestirnir þó að stoppa Álftanes og komust nokkrum stigum yfir, við þetta virtist Álftanes missa trúna í sigri í hrinunni og sigldi Þróttur sigrinum heim 25-18.

Álftanes ætlaði svo sannarlega ekki að gefast auðveldlega upp og þær voru eins og í byrjun annarar hrinu vel stemmdar í upphafi þeirrar þriðju. Álftanes leiddi mestalla hrinuna með tveimur til þremur stigum. Þær voru síðan yfir 24-22 í lok hrinunnar. Þá sýndi Þróttur hinsvegar styrk sinn og skoraði fjögur stig í röð og lokaði hrinunni 26-24. Þær unnu þar með leikinn 3-0 og taka þrjú stig með sér aftur heim.

Bestar á vellinum voru Þróttarastelpurnar Eldey Hrafnsdóttir sem var stigahæst með 14 stig og Cristina Oliveira sem skoraði 11 stig þar af 7 stig í hávörn.
Hjá heimakonum í Álftanesi var það hinsvegar Astrid Ericsson sem var atkvæðamest með 10 stig.

Með sigrinum hoppar Þróttur R. upp í þriðja sæti deildarinnar upp fyrir HK en liðið er núna með 16 stig einu stigi á undan HK.
Álftanes eru sem fyrr á botni deildarinnar með þrjú stig.

Nánari tölfræði úr leiknum má sjá hér.