[sam_zone id=1]

HK með öruggan sigur í Mosó

Afturelding tók á móti toppliði HK í Mizunodeild karla í kvöld.

Afturelding vann síðasta leik liðanna nokkuð örugglega, 3-0, þegar þau mættust í desember. Quentin Moore var þó ekki með liði Aftureldingar í kvöld og nýtti HK sér það vel. Þeir settu mikla pressu á heimamenn sem áttu fá svör við sterkum uppgjöfum og hávörn gestanna.

Fyrstu tvær hrinur leiksins voru mjög svipaðar og leiddi HK frá upphafi. Afturelding komst í raun aldrei í gang og eltu alveg frá byrjun. Fyrstu tveimur hrinunum lauk báðum 17-25, HK í vil, en Afturelding tók við sér í þriðju hrinunni.

Þar leiddu heimamenn frá upphafi og gerðu uppgjafir Mosfellinga gestunum erfitt fyrir. Um miðja hrinu virtist Afturelding vera að sigla sigri heim í hrinunni og náðu þeir mest fimm stiga forystu. HK komst þó á gott skrið og leiddi seinni hluta hrinunnar. Þeir tryggðu sér svo nauman 23-25 sigur og unnu leikinn 0-3.

Sigþór Helgason skoraði 10 stig fyrir Aftureldingu en Andreas Hilmir Halldórsson var stigahæstur með 14 stig fyrir lið HK. Lið HK styrkir stöðu sína á toppi deildarinnar með sigrinum og er nú með 25 stig eftir 11 leiki. Afturelding er í 5. sæti deildarinnar með 12 stig eftir 11 leiki og er í harðri baráttu við KA um sæti í úrslitakeppninni í vor.

HK mætir næst Álftanesi og fer sá leikur fram 30. janúar næstkomandi. Afturelding gerir sér ferð norður á Akureyri og mætir KA þann 2. febrúar í leik sem er gríðarlega mikilvægur í baráttunni um 4. sætið.