[sam_zone id=1]

Calais tapaði í háspennuleik

Calais mætti í gær liði CNVB sem er nokkurn veginn u-20 lið Frakklands. Liðin voru fyrir leik í þriðja og fjórða sæti deildarinnar og leikurinn því mikilvægur fyrir bæði lið upp á að ná í þriðja sætið sem er síðasta sætið sem gefur sæti í úrslitakeppninni.

Leikurinn hófst á óvenjulegum tíma eða klukkan 11 á sunnudagsmorgni og virtust leikmenn Calais ekki alveg vera vaknaðir þegar leikurinn fór af stað.
CNVB voru betri á öllum sviðum leiksins í þessari hrinu og unnu hana sannfærandi 15-25.

Leikmenn Calais voru þó aðeins betur stefndir í byrjun annarar hrinu og voru þeir að taka betur á móti og náðu að setja meiri pressu á liðsmenn CNVB. Úr varð spennandi og skemmtileg hrina þar sem hvorugt liðið náði að skilja sig frá hinu, það þurfti upphækkun til en að lokum var það landsliðsmaðurinn Hafsteinn Valdimarsson sem skoraði síðasta stig hrinunnar með flottri hávörn og tryggði 26-24 sigur.

Næstu tvær hrinur voru síðan báðar hnífjafnar þar sem liðin unnu sitthvora hrinuna, fyrst voru það CNVB sem unnu 26-24 sigur áður en að Calais svaraði í fjórðu hrinunni með sigri 25-21.

Það þurfti því oddahrinu til að skera úr um sigurinn. Calais byrjaði oddahrinuna betur og leiddu 7-5 um miðja hrinuna. CNVB voru þó sterkir á endasprettinum og höfðu að lokum sigur 15-11 og unnu þar með leikinn 3-2.

Hafsteinn Valdimarsson var eins og áður í byrjunarliði Calais og átti hann flottan leik á miðjunni hjá liðinu.

Calais er enþá í þriðja sætinu eftir tapið en liðið er með 20 stig fjórum stigum á undan CNVB sem á þó leik til góða. Það er því ljóst að það verður hart barist um þriðja sætið en einungis eru þrjár umferðir eftir af deildarkeppninni.

Nánar má sjá um úrslit og stöðu í deildinni hér.