[sam_zone id=1]

KA vann á Ísafirði

Vestri og KA mættust í leik dagsins í Mizunodeild karla.

Liðin mætast tvisvar þessa helgina og fara leikirnir fram laugardag og sunnudag. Liðin voru fyrir leikinn í neðstu tveimur sætum deildarinnar, KA með átta stig í 5. sætinu og Vestri með þrjú stig í 6. sætinu. Bæði lið höfðu þó einungis spilað átta leiki gegn tíu leikjum hjá öðrum liðum deildarinnar.

Mateusz Klóska, nýkjörinn íþróttamaður Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2019, lék ekki með liði Vestra í leiknum en Mateo Castrillo, íþróttamaður KA 2019, var á sínum stað í liði gestanna. Í fyrstu hrinunni var leikurinn nokkuð jafn en KA var þó skrefinu á undan. Eftir spennandi lokakafla vann KA 22-25 og náði 0-1 forystu.

Næstu tvær hrinur voru mun ójafnari og hafði KA góð tök á heimamönnum. Þeir byggðu smám saman upp forskot í annarri hrinu og unnu hana 19-25 en þriðja hrinan varð aldrei spennandi. Hana unnu KA 16-25 eftir að hafa mest náð 11 stiga forystu.

Álvaro Cunedo Gonzáles Gonzáles var stigahæstur í liði Vestra með 11 stig en Hafsteinn Már Sigurðsson og Antonio Fernándes Ortis skoruðu 8 stig hvor. Miguel Mateo Castrillo skoraði 17 stig fyrir KA og Alexander Arnar Þórisson bætti við 13 stigum.

Eftir sigurinn er KA með 11 stig og er nú einu stigi á eftir liði Aftureldingar. Vestri er enn í neðsta sætinu með þrjú stig og virðist ólíklegt að þeir taki þátt í úrslitakeppninni þar sem efstu fjögur lið deildarinnar berjast um Íslandsmeistaratitilinn. Liðin mætast aftur kl. 12:00 á morgun.