[sam_zone id=1]

Afturelding og Þróttur R með sigra í kvöld

Tveir leikir fóru fram í Mizunodeild kvenna í kvöld.

HK mætti Aftureldingu í Kópavogi en liðin eru í 2. og 3. sæti deildarinnar. Afturelding þurfti nauðsynlega á öllum stigunum að halda til að missa topplið KA ekki of langt frá sér en HK var þó einungis þremur stigum á eftir Mosfellingum.

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með en Afturelding tók völdin fljótlega. Þær unnu fyrstu tvær hrinurnar örugglega, 13-25 og 18-25, en HK kom til baka og vann þriðju hrinu 25-22. Það dugði þó skammt og Afturelding fór létt með heimakonur í fjórðu hrinu. Henni lauk 9-25 og Afturelding vann öruggan 1-3 sigur.

Sara Ósk Stefánsdóttir var stigahæst í liði HK með 13 stig en Thelma Dögg Grétarsdóttir átti stórleik fyrir Aftureldingu og skoraði alls 25 stig.

Þróttur Reykjavík tók á móti Álftanesi í Laugardalshöllinni í hinum leik kvöldsins. Þróttarar voru í 4. sæti deildarinnar með 10 stig en Álftanes var á botninum með einungis þrjú stig. Fjögur lið fara í úrslitakeppni og því eru Álftnesingar á síðasta séns vilji liðið ekki fara snemma í sumarfrí.

Þróttur R byrjaði leikinn betur og vann fyrstu hrinu 25-20 en Álftanes marði 23-25 sigur í annarri hrinu og jafnaði leikinn. Næstu tvær hrinur vann Þróttur þó, báðar 25-23, og tryggði sér þar með 3-1 sigur og þrjú mikilvæg stig í baráttunni um þriðja sætið.

Cristina Oliveira Ferreira skoraði 15 stig fyrir Þrótt R og var stigahæst í liði þeirra. Astrid Ericsson skoraði 18 stig fyrir Álftanes og var stigahæst í liði gestanna.

Afturelding er nú fimm stigum á eftir toppliði KA en Þróttur R nálgast HK í stigatöflunni. HK er með 15 stig eftir 11 leiki en Þróttur 13 stig eftir einungis níu leiki. Álftanes situr þó enn á botni deildarinnar með þrjú stig eftir átta leiki.

Álftanes og Þróttur R mætast aftur þann 24. janúar, þá á heimavelli Álftnesinga. Þann 29. janúar fara svo fram tveir leikir. Annars vegar mætast Þróttur R og HK en hins vegar Afturelding og Álftanes. Þróttur R gæti því komist upp fyrir HK nú strax í janúar og jafnvel nálgast lið Aftureldingar nái liðið í tvo sigra úr leikjunum tveimur.