[sam_zone id=1]

Calais með sigur í fyrsta leik ársins

Calais spilaði í gær sinn fyrsta leik á árinu 2020 þegar þeir tóku á móti Arles í frönsku N1 deildinni í gær. Bæði lið þurftu á sigri að halda til að auka möguleika sína á að enda í topp þremur í riðlinum.

Calais byrjaði leikinn mjög vel og var greinilegt að þeir voru tilbúnir í leikinn. Þeir náðu fljótt góðu forskoti í hrinunni, Arles voru þó ekki af baki dottnir og þeir náðu að minnka muninn aðeins í lokinn en það var þó ekki nóg og unnu Calais hrinunna 25-20.

Önnur hrinan var jafnari til að byrja með og voru Calais ekki alveg eins skarpir í byrjun hrinunnar. Arles náði fljótt 4 stiga forystu í hrinunni. Calais voru þó ekki lengi að snúa því við og um miðja hrinuna voru heimamenn komnir með 4 stiga forystu. Þeir létu þessa forystu ekki að hendi og unnu aðra hrinuna einnig 25-20.

Þriðja hrinan var svipuð og sú fyrsta þar sem Calais náði fljótt frumkvæðinu og héldu því allt til loka, þeir unnu þriðju hrinuna 25-18 og þar með leikinn 3-0.

Góður sigur hjá Calais sem þurfti á sigrinum að halda eftir tvo tapleiki í röð í deildinni. Þeir styrktu með sigrinum stöðu sína í þriðja sætinu og eru þeir núna með 19 stig.

Landsliðsmaðurinn Hafsteinn Valdimarsson var í byrjunarliði Calais í dag og lék hann allan leikinn. Hann átti mjög góðan leik í liði Calais í dag og var með bestu mönnum vallarins.

Nánari upplýsingar um úrslit og stöðu í deildinni má sjá hér.