[sam_zone id=1]

Álftanes vann Aftureldingu á heimavelli

Álftanes tók á móti Aftureldingu í Mizunodeild karla í kvöld. Deildin hófst þar með eftir jólafrí.

Afturelding hefur verið á miklu skriði í síðustu leikjum og gat jafnað við Álftanes í 3. sæti deildarinnar með sigri. Álftanes hefur aftur á móti átt nokkuð erfitt uppdráttar eftir góða byrjun í upphafi móts.

Fyrsta hrina var nokkuð jöfn en smám saman tóku heimamenn forystuna og unnu hrinuna nokkuð sannfærandi að lokum, 25-20. Gestirnir úr Mosfellsbæ komu sterkari til leiks í annarri hrinu en um miðja hrinuna misstu þeir tökin. Álftanes fór frá því að vera tveimur stigum undir í að vera sex stigum yfir og var eftirleikurinn auðveldur. Þeir unnu hrinuna 25-16 og leiddu því 2-0.

Þriðja hrinan fór fram með svipuðum hætti og sú fyrsta en þó munaði einungis einu stigi undir lok hrinunnar. Álftnesingar reyndust mun sterkari á lokakaflanum og unnu hrinuna 25-21. Þeir unnu leikinn þar með 3-0 og náðu í þrjú mikilvæg stig.

Austris Bucovskis var stigahæstur Álftnesinga með 14 stig og Róbert Karl Hlöðversson bætti við 11 stigum. Í liði Aftureldingar var Quentin Moore atkvæðamestur og skoraði 18 stig. Sebastian Sævarsson Meyer kom næstur með 9 stig.

Álftanes er nú með 18 stig, aðeins einu stigi á eftir liði HK sem er í öðru sæti deildarinnar og þremur stigum á eftir toppliði deildarinnar, Þrótti Nes. Þau tvö lið mætast þó um helgina en þau eiga þann leik til góða á Álftnesinga. Afturelding er með 12 stig í 4. sæti deildarinnar og hefur leikið 10 leiki, jafn marga og Álftanes.

Álftanes heldur næst norður á Akureyri og mætir þar liði KA þann 25. janúar næstkomandi. Afturelding mætir liði HK á heimavelli sínum að Varmá og fer sá leikur fram miðvikudaginn 22. janúar.