[sam_zone id=1]

Ungt og efnilegt lið Íslands með brons á Novotel Cup

Ísland spilaði í dag sinn þriðja og síðasta leik á Novotel Cup í Lúxemborg. Stelpurnar okkar mættu heimaliðinu en Lúxemborg hafði ekki tapað hrinu á mótinu fyrir leikinn. Leikurinn fór 3-1 fyrir Lúxemborg (25-15, 16-25, 27-25, 25-22).

Matthildur Einarsdóttir, uppspilari liðsins, er að glíma við meiðsli og tók því ekki þátt í leiknum í dag. Hin unga og efnilega, Jóna Margrét Arnarsdóttir, tók við stöðu uppspilara og var í byrjunarliðinu í A-landsliðinu í fyrsta skipti.  

Í byrjunarliði Íslands í fyrstu hrinu voru:

  • Jóna Margrét Arnarsdóttir – uppspilari
  • Thelma Dögg Grétarsdóttir – díó
  • Sara Ósk Stefánsdóttir – miðja
  • Gígja Guðnadóttir – miðja
  • Helena Kristín Gunnarsdóttir – kantur
  • María Rún Karlsdóttir – kantur
  • Kristina Apolstolova – móttöku frelsingi
  • Valdís Kapitola – varnar frelsingi

Leikurinn fór jafnt af stað og spilaði Ísland sterkan sóknar- og hávarnarleik í byrjun hrinunnar. Allt var jafnt í stöðunni 11-11 en þá gáfu þær lúxemborgísku í og tók Borja, landsliðsþjálfari Íslands, leikhlé í stöðunni 14-11 fyrir Lúxemborg. Leikhléð dugði ekki til og tók Borja sitt seinna leikhlé í stöðunni 18-12. Lúxemborg kláraði hrinuna nokkuð létt 25-15 eftir sterkar uppgjafir og klókan sóknarleik hjá heimaliðinu.

Sama byrjunarlið var hjá stelpunum okkar í annari hrinu og þeirri fyrstu, nema frelsingjarnir skiptu um hlutverk. Lúxemborg gerði mikið af mistökum í byrjun hrinunnar og tók liðið leikhlé í stöðunni 2-5 fyrir Ísland. María Rún, Helena Kristín og Thelma Dögg voru allar í miklu stuði í sókninni og var staðan 8-13 fyrir Ísland þegar Lúxemorg tók sitt seinna leikhlé í hrinunni. Ísland hélt áfram frábærum sóknar- og varnarleik og var mikil leikgleði á vellinum. Íslenska liðið kláraði hrinuna 16-25 og þar með tapaði Lúxemborg fyrstu hrinunni a mótinu.

Sömu leikmenn voru í byrjunarliðið Íslands í þriðju hrinu og byrjuðu stelpurnar okkar af miklum krafti. Ísland spilaði mikið í gegn um miðjuna og Lúxemborg átti engin svör við sterkum sóknar- og varnarleik Íslands. Lúxemborg tók leikhlé í stöðunni 0-4 fyrir Ísland og við það hrukku þær í gang og jöfnuðu leikinn í stöðunni 8-8, eftir að hafa verið undir 1-5 og 3-8. Ísland tók leikhlé í stöðunni 8-8 og enn var allt jafnt í 19-19. Lúxemborg tóku sitt annað leikhlé í stöðunni 19-21 fyrir Ísland og Ísland tók síðan leikhlé í stöðunni 21-22 fyrir Ísland. Lúxemborg jafnaði leikinn í stöðunni 24-24 og aftur í 25-25. Lúxemborg kláraði svo hrinuna 27-25.

Fjórða hrina fór jafnt af stað og einkenndist hrinan af löngum rallýum þar sem boltinn fór oft yfir netið áður en var skorað. Ísland tefldi fram sama liði og í hinum þremur hrinunum.  Ísland tók leikhlé í stöðunni 8-5 fyrir Lúxemborg. Daníela Grétarsdóttir kom inn í uppspiið fyrir Jónu í hrinunni og náði Ísland  að jafna leikinn í stöðunni 11-11. Þá kom sterkur kafli hjá Lúxemborg og þurfti Ísland að taka leikhlé í stöðunni 15-11. Ísland jafnaði leikinn í 16-16 og tók þá Lúxemborg leikhlé. Enn var allt jafnt í stöðunni 20-20 en Lúxemborg voru aðeins sterkari undir lok hrinunnar og kláruðu þær hrinuna 25-22, og þar með leikinn 3-1.

Thelma Dögg Grétarsdóttir, fyrirliði, var stigahæst í íslenska liðinu með 24 stig. María Rún Karlsdóttir var næst stigahæst með 13 stig.