[sam_zone id=1]

Brons niðurstaða hjá strákunum

Ísland og Lúxemborg mættust í dag í lokaleik Novotel Cup 2020. Ísland hafði fyrir leikinn tryggt sér 3.sætið en áttu með sigri í dag möguleika á 2.sætinu.

Fyrr í dag mættust England og Skotland og vann England þann leik 3-2 og enda því með 5 stig, sem þýddi að ef íslenska liðið næði 3 stigum úr leiknum gegn Lúxemborg þá myndi liðið enda í 2.sæti.

Byrjunarlið Íslands í dag var skipað eftirfarandi leikmönnum: Máni Matthíasson í uppspili, Þórarinn Örn Jónsson og Ævarr Freyr Birgisson á köntunum, Galdur Máni Davíðsson og Hafsteinn Valdimarsson (fyrirliði) á miðjunni, Sigþór Helgason í díó og Kári Hlynsson og Arnar Birkir Björnsson skiptu með sér hlutverki frelsingja.

Leikurinn fór hægt af stað hjá íslenska liðinu en heimamenn voru komnir í 5-1 þegar Ísland tók sitt fyrsta leikhlé. Strákarnir réðu illa við sterkar uppgjafir hjá Lúxemborg. Strákarnir komu sér hægt og rólega af stað og náðu að saxa niður forskot heimamanna. Þeir Lúðvík Már Matthíasson og Ragnar Már Garðarsson komu inn í stað Sigþórs Helgasonar og Mána Matthíassonar í stöðunni 12-15. Í stöðunni 22-18 kom Elvar Örn Halldórsson inn fyrir Þórarinn Örn Jónsson en Ísland hafði náð að vinna aðeins upp stórt forskot heimamanna. Frábær undurkoma Íslands dugði hinsvegar ekki til en Lúxemborg fór að lokum með sigur 26-24.

Óbreytt byrjunarlið Íslands hóf aðra hrinu en aftur voru strákarnir lengi af stað og lentu strax 4-0 undir. Strákarnir komu hinsvegar vel inní leikinn og komust yfir 6-5. Ísland hélt áfram að snúa leiknum sér í hag og eftir frábæra hávörn hjá íslenska liðinu tóku heimamenn leikhlé í stöðunni 16-13 fyrir Ísland. Lúxemborg nær að lokum að jafna í 23-23 og tók þá Ísland sitt seinna leikhlé. Eftir æsispennandi lokakafla voru það að lokum Lúxemborg sem fóru með sigur 28-26.

Enn var óbreytt byrjunarlið hjá Íslandi í þriðju hrinu en loks fóru strákarnir strax í gang og var jafnt á fyrstu tölum. Heimamenn gengu hinsvegar á lagið og eftir fjögurra stiga kafla hjá Lúxemborg tók Ísland leikhlé í stöðunni 8-4. Enn og aftur var góð endurkoma hjá strákunum en líkt og í fyrri tveimur hrinum leiksins þá dugði hún ekki til og vann Lúxemborg hrinuna 25-22 og leikinn þar með 3-0.

Bronsið niðurstaða hjá strákunum en Ísland hefur aldrei áður endað í verðlaunasæti í karlaflokki á Novotel Cup. Flott mót hjá strákunum þrátt fyrir tap í dag.

Stigahæstur í íslenska liðinu voru Sigþór Helgason og Ævarr Freyr Birgisson báðir með 13 stig. Næstur á eftir þeim kom Galdur Máni Davíðsson með 8 stig.