[sam_zone id=1]

Frábær sigur hjá strákunum í æsispennandi leik

Íslenska karlalandsliðið mætti í dag Skotlandi í öðrum leik liðsins á Novotel Cup 2020 en strákarnir töpuðu í gær gegn Englandi 3-1.

Byrjunarlið Íslands í dag var skipað eftirfarandi leikmönnum: Lúðvík Már Matthíasson í uppspili, Þórarinn Örn Jónsson og Ævarr Freyr Birgisson á köntunum, Hafsteinn Valdimarsson (Fyrirliði) og Galdur Máni Davíðsson á miðjunni, Bjarki Benediktsson díó og þeir Arnar Birkir Björnsson og Kári Hlynsson skiptu með sér hlutverki frelsingja.

Leikurinn fór vel af stað og var mikill kraftur í báðum liðum. Íslensku strákarnir voru hinsvegar öllu kraftmeiri og var Ísland komið með 5 stiga forskot þegar Skotland tók sitt fyrsta leikhlé í stöðunni 4-9. Ísland var með gott 4-5 stiga forskot megnið af hrinunni og svo gáfu strákarnir í undir lokinn og unnnu að lokum 25-17. Frábær byrjun hjá strákunum og sóknarleikur liðsins til fyrirmyndar.

Byrjunarlið Íslands var óbreytt á milli hrina en það voru skotarnir sem tóku fyrsta stigið. Strákarnir tóku sér nokkur stig í að koma sér í gang en náðu fljótt tökum á leiknum þrátt fyrir nokkuð jafna hrinu. Skotarnir tóku leikhlé þegar Ísland náði 5 stiga forskoti 21-16. Skotarnir náðu hinsvegar að snúa leiknum við eftir leikhléið og jafna 22-22. Ísland tók leikhlé í stöðunni 24-24 en skotar réðu á vaðið og tóku næstu tvö stig og tryggðu sér sigur 26-24.

Ísland gerði tvær breytingar á byrjunarliði sínu frá síðustu hrinum en Sigþór Helgason kom inn í stað Bjarka Benediktssonar og þá fór Galdur Máni Davíðsson út fyrir Elvar Örn Halldórsson. Strákarnir mættu full kærulausir til leiks í þriðju hrinu og gerðu ódýr mistök sem gáfu skotum gott forskot. Galdur Máni Davíðsson kom aftur inn fyrir Elvar Örn Halldórsson í stöðunni 7-10 en Ísland tók svo leikhlé þegar skotar voru komnir með 4 stiga forskot 12-8. Í kjölfarið kom Máni Matthíasson inn fyrir Lúðvík Már Matthíasson í uppspilið. Flottur kafli hjá strákunum varð til þess að skotar tóku leikhlé þegar staðan var 17-18 en flott barátta frá íslenska liðinu skilaði því að munurinn var nú bara eitt stig. Ísland var svo komið yfir 21-19 þegar skotar taka sitt seinna leikhlé, strákarnir héldu út og unnu að lokum 25-23 eftir æsispennandi lokakafla.

Galdur Máni kom aftur inn í byrjunarliðið í fjórðu hrinu en Ísland hóf leik. Liðin skiptu með sér stigum í byrjun hrinu en svo kom slæmur kafli hjá íslenska liðinu sem skilaði skotum þriggja stiga forskoti. Kristófer Björn Ólason Proppe kom inn á miðjuna í miðri hrinu og stimplaði sig strax inn með stigi. Eftir smá ströggl hjá íslenska liðinu ná þeir að snúa leiknum við og jafna 16-16 en með mikilli baráttu ná strákarnir að jafna. Eftir æsispennandi lokakafla voru það Ísland sem höfðu betur 34-32.

Frábær sigur hjá strákunum í hörkuleik en stigahæstur í liði Íslands var Ævarr Freyr Birgisson með 28 stig. Næstur á eftir honum kom Þórarinn Örn Jónsson með 14 stig.