[sam_zone id=1]

England hafði betur í bragðdaufum leik

Íslenska kvennalandsliðið mætti í dag Englandi í öðrum leik sínum á Novotel Cup 2020. Ísland mætti Skotlandi í gær og hafði þar betur 3-1.

Byrjunarlið Íslands í dag var skipað eftirfarandi leikmönnum: Matthildur Einarsdóttir í uppspili, Helena Kristín Gunnarsdóttir og María Rún Karlsdóttir á köntunum, Sara Ósk Stefánsdóttir og Valdís Unnur Einarsdóttir á miðjunni, Thelma Dögg Grétarsdóttir (fyrirliði) í díó og þá skiptu Kristina Apostolova og Valdís Kapitola Þorvarðardóttir með sér stöðu frelsingja.

Valdís Unnur Einarsdóttir var að spila sinn fyrsta A landsleik og kom beint inní byrjunarliðið. Ísland hóf leik en það voru þær ensku sem tóku fyrsta stig leiksins. Íslensku stelpurnar komust engan veginn í gang í fyrstu hrinu en Ísland neyddist til að taka leikhlé í stöðunni 1-5. England kom mun sterkara til leiks og voru með 8 stiga forskot þegar Ísland tók sitt seinna leikhlé. Sóknarleikur Íslands var ekki nógu kraftmikill og voru mistök íslenska liðsins að skila Englandi ódýrum stigum. Í stöðunni 10-19 gerði Ísland tvöfalda skiptingu en þá komu þær Daníela Grétarsdóttir og Sóldís Björt Blöndal Leifsdóttir inn fyrir Matthildi Einarsdóttur og Thelmu Dögg Grétarsdóttur. Ísland tapaði fyrstu hrinu 25-13.

Ísland stillti upp óbreyttu byrjunarliði milli hrina, stelpurnar komu grimmari til leiks í annarri hrinu en lentu þó fljótlega 4 stigum undir 8-4 þegar Ísland tók leikhlé. Í stöðunni 5-11 kom Heiða Elísabet Gunnarsdóttir inn fyrir Maríu Rún Karlsdóttur. Ísland tók sitt seinna leikhlé í stöðunni 7-14. Ísland gerði sömu tvöföldu skiptinguna og í fyrstu hrinur þegar þær Daníela og Sóldís komu inn í stöðunni 12-18. Kristín Fríða Sigurborgardóttir kom inná í stöðunni 13-20 og þá höfðu allir nýliðar Íslands í ferðinni komið við sögu á þessu móti. Ísland tapaði annarri hrinu 25-17.

Meðalaldur Íslands undir lok annarrar hrinu var ekki nema 18,8 ár en sú elsta var Helena Kristín Gunnarsdóttir, 27 ára og sú yngsta var Sóldís Björt Blöndal Leifsdóttir 15 ára.

Ísland gerði eina breytingu á byrjunarliði sínu frá fyrstu tveimur hrinum leiksins en Heiða Elísabet Gunnarsdóttir byrjaði í stað Maríu Karlsdóttur. Ísland byrjaði af krafti í þriðju hrinu og voru yfir til að byrja með. Það fór hinsvegar fljótt að draga af stelpunum en England var yfir 10-8 í fyrsta leikhléi. Daníela Grétarsdóttir kom inn fyrir Matthildi Einarsdóttur í stöðunni 10-15 og Sóldís Björt Blöndal Leifsdóttir kom inn fyrir Thelmu Dögg Grétarsdóttur í stöðunni 10-17. Jóna Margrét Arnarsdóttir kom inn í uppgjöf undir lok hrinu og höfðu þá allir leikmenn liðsins tekið þátt í leiknum að Gígju Guðnadóttur undanskyldri en hún var hvíld vegna meiðsla. Þrátt fyrir góðan lokakafla í leiknum þá tapaði Ísland þriðju hrinu 25-20 og leiknum þar með 0-3.

Það slæma við leikinn í dag var því miður það að lykilleikmenn Íslands náðu sér ekki á strik en það jákvæða er hinsvegar það að yngri leikmenn liðsins stóðu sig með prýði og áttu flottar innkomur.

Stigahæst í liði Íslands í dag var Thelma Dögg Grétarsdóttir með 7 stig. Næst á eftir henni kom Helena Kristín Gunnarsdóttir með 5 stig.