[sam_zone id=1]

Grátlegt tap í fyrsta leik á Novotel Cup

Ísland hóf leik á Novotel Cup í dag þegar íslenska karlalandsliðið mætti Englandi. Leikurinn var fyrsti leikur mótsins og hófst hann kl 12:30 að staðartíma.

Byrjunarlið Íslands var skipað eftirfarandi leikmönnum: Lúðvík Már Matthíasson uppspilari, Hafsteinn Valdimarsson (fyrirliði) og Galdur Máni Davíðsson miðjur, Ævarr Freyr Birgisson og Sigþór Helgason kantar, Bjarki Benediktsson díó og þá skiptu Arnar Birkir Björnsson og Kári Hlynsson með sér hlutverki frelsingja, Kári Hlynsson var að leika sinn fyrsta A landsleik.

Ísland hóf leik en það voru hinsvegar englendingar sem tóku fyrstu tvö stig leiksins. Ísland jafnaði svo 2-2 en bæði lið tóku sér smá tíma í að koma sér af stað. Eftir smá ströggl í móttökunni hjá Íslandi þá komust England í 10-5 en þá tók Tihomir Paunovski þjálfari Íslands leikhlé. Strákarnir tóku vel við sér eftir leikhléið og tókst þeim að minnka muninn í 11-10 þegar England tekur leikhlé. Enn hélt móttakan áfram að stríða íslenska liðinu og neyddist Tihomir Paunovski þjálfari Íslands til að taka sitt seinna leikhlé í stöðunni 13-17. Þórarinn Örn Jónsson kom inn fyrir Sigþór Helgason í stöðunni 15-19 en England fór að lokum með sigur í fyrstu hrinu 25-22 og nokkuð ljóst að íslenska liðið átti nóg inni.

Þórarinn Örn Jónsson hélt stöðu sinni í annarri hrinu en að öðru leiti var byrjunarlið Íslands óbreytt. Ísland byrjaði hrinuna af krafti og tóku fyrstu tvö stigin. Góður sóknarleikur Íslands skilaði þeim 6-3 forystu strax í byrjun hrinu. England náði hinsvegar að jafna 12-12 og þá kom Sigþór Helgason inn fyrir Bjarka Benediktsson, Tihomir Paunovski tók svo leikhlé þegar England komst yfir 13-12 en leikur Íslands var aðeins farinn að dala eftir góða byrjun í hrinunni. Ísland tók vel við sér eftir leikhléið með smá aðstoð frá þeim ensku sem misnotuðu fjórar uppgjafir og komst Ísland í 20-16. Elvar Örn Halldórsson kom þá inn fyrir Þórarinn Örn Jónsson á meðan Ísland var í uppgjöf, Elvar og Þórarinn skiptu svo aftur stuttu seinna. Í stöðunni 23-18 fyrir Ísland fer rangur maður í uppgjöf hjá Englandi og fyrir vikið kemst Ísland í 24-18. Ísland tók svo lokastigið eftir mistök Englands og náði Ísland því að jafna leikinn 1-1 með sigri í annarri hrinu 25-20.

Í þriðju hrinu var byrjunarlið Íslands óbreytt frá annarri hrinu og var Bjarki Benediktsson kominn aftur inn fyrir Sigþór Helgason. Strákarnir mættu full kærulausir til leiks og komst England í 4-0. Tihomir Paunovski gerði breytingu og kom Máni Matthíasson inn fyrir Lúðvík Má Matthíasson. Strákarnir tóku vel við sér og minnkuðu muninn í 3-4. Sigþór Helgason kom að nýju inn fyrir Bjarka Benediktsson í stöðunni 5-10. Eftir flottan kafla náði Ísland að jafna 11-11. Góður viðsnúningur Íslands hélt áfram en eftir frábæran kafla var Ísland komið yfir 15-11. Eftir tvö stig beint úr uppgjöf jafnar England 15-15. Sama breyting var gerð og í annarri hrinu en Elvar Örn Halldórsson kom inn fyrir Þórarinn Örn Jónsson í stöðunni 22-20 fyrir Ísland og fer svo aftur út stigi seinna. Tvö ódýr mistök hjá íslenska liðinu skiluðu Englandi sigur 26-24.

Fjórða hrina fór ekki vel af stað en Ísland gerði full mikið af mistökum og gerðu þeir enska liðinu auðvelt fyrir, England var fljótt komið með gott forskot 8-3. Lúðvík Már Matthíasson kom þá inn fyrir Mána Matthíasson. Bjarki Sveinsson kom inn í sínum fyrsta leik í uppgjöf fyrir Sigþór Helgason. Ekkert virtist ganga upp hjá Íslandi í fjórðu hrinu en England virtist aftur á móti loksins ná fullum krafti og virtust þeir ætla að valta yfir íslenska liðið. Kristófer Björn Ólason Proppe kom inn í stöðunni 18-9 fyrir Ísland en hann var að koma inná í sínum fyrsta A landsleik. Enska liðið gaf ekkert eftir og hélt áfram góðum leik og náði loks sigri 25-15.

Grátlegt tap staðreynd þar sem að England var lengi í gang og gerði aragrúa af mistökum fyrstu þrjár hrinurnar. Íslensku strákarnir náðu hinsvegar ekki að nýta sér það og eiga þeir helling inni.

Stigahæstur í liði Íslands í leiknum var Ævarr Freyr Birgisson með 13 stig. Næstur á eftir honum kom Þórarinn Örn Jónsson með 9 stig.

Allir leikmenn Íslands að undanskyldum Ragnari Garðarssyni fengu tækifærki í leiknum en Ragnar glímir við smávæginleg meiðsli.