[sam_zone id=1]

Flottur 3-1 sigur gegn Skotum

Íslenska kvennalandsliðið spilaði í dag sinn fyrsta leik á Novotel Cup þegar þær mættu Skotlandi.

Byrjunarlið Íslands var skipað eftirfarandi leikmönnum: Matthildur Einarsdóttir uppspilari, Gígja Guðnadóttir og Sara Ósk Stefánsdsóttir á miðjunni, Helena Kristín Gunnarsdóttir og María Rún Karlsdóttir á köntunum, Thelma Dögg Grétasdóttir (fyrirliði) í díó og Kristina Apostolova og Valdís Kapitola Þorvarðardóttir skiptu með sér hlutverki frelsingja.

Matthildur Einarsdóttir byrjaði leikinn í uppgjöf og náði Ísland strax góðu forskoti 3-0. Ísland byrjaði leikinn mjög vel og náðu með sterkum uppgjöfum góðu forskoti. Þjálfari Skotlands tók leikhlé í stöðunni 12-9 fyrir Ísland. Skotarnir jafna 12-12 en varnarleikur Íslands er til vandræða. Ísland tók svo leikhlé í stöðunni 13-15 en aðeins hafði dregið úr sóknarleik liðsins. Leikurinn jafnaðist aðeins eftir leikhléið og skiptust liðin á stigum. Jóna Margrét Arnarsdóttir kom inn fyrir Söru Ósk Stefánsdóttur í stöðunni 22-19 fyrir Ísland en Jóna var að koma inná í sínum fyrsta leik fyrir A landsliðið. Skotland nær að jafna 22-22 eftir tvö stig beint úr uppgjöf en þá tekur Borja Gonzalez þjálfari Íslands leikhlé. Skotar klára svo hrinuna 26-24 með stigi beint úr uppgjöf.

Byrjunarlið Íslands var óbreytt í annarri hrinu og aftur var það Ísland sem fékk fyrstu stigin, Ísland komst í 3-0 en Matthildur Einarsdóttir skoraði þá tvö stig beint úr uppgjöf. Ísland hélt áfram að sækja og þurfti þjálfari Skota að taka leikhlé í stöðunni 1-6. Ísland náði hægt og rólega upp góðu forskoti og var sóknarleikur Ísland að valda Skotum töluverðum vandræðum. Aftur kom Jóna Margrét Arnarsdóttir inná í uppgjöf fyrir Gígju Guðnadóttur í stöðunni 21-16. Nýliðarnir héldu áfram að koma inná en Ísland gerði tvöfalda skiptingu í stöðunni 23-18, Daníela Grétarsdóttir kom inn fyrir Thelmu Dögg Grétarsdóttur og þá kom Sóldis Björt Blöndal Leifsdóttir inn fyrir Matthildi Einarsdóttur og kláruðu þær báðar hrinuna sem endaði með sigri Íslands 25-19.

Ísland stillti upp óbreyttu byrjunarliði í þriðju hrinu og héldu uppteknum hætti og náðu fyrsta stigi hrinunnar. Leikurinn var nokkuð jafn og skiptust liðin á stigum megnið af hrinunni, Ísland náði svo 5 stiga forskoti undir lok hrinu. Borja Gonzalez þjálfari Íslands nýtti tækifærið og gerði tvöfalda skiptingu Jóna Margrét Arnarsdóttir kom inn fyrir Thelmu Dögg Grétarsdóttur og Heiða Elísabet Gunnarsdóttir kom inn fyrir Matthildi Einarsdóttur. Ísland vann að lokum hrinuna 25-20 og því komnar yfir í leiknum 2-1.

Enn var óbreytt byrjunarlið Íslands sem hóf fjórðu hrinu. Ísland byrjaði nokkuð vel í fjórðu hrinu en skotarnir voru þó aldrei langt á eftir. Ísland náði að skilja sig vel frá skoska liðinu undir miðja hrinu og var munurinn orðinn 8 stig. Í stöðunni 18-15 kom Sóldís Björt inn fyrir Gígju Guðnadóttir í uppgjöf. Eftir smá ströggl undir lokinn þá náði Ísland sigri 25-19 og sigraði leikinn þar með 3-1.

Stigahæst í liði Íslands var Thelma Dögg Grétarsdóttir með 21 stig, næst á eftir henni kom María Rún Karlsdóttir með 17 stig.