[sam_zone id=1]

KA styrkti stöðu sína á toppnum

Tveir leikir fóru fram í Mizunodeild kvenna í dag og var annar toppslagur að Varmá.

Báðar viðureignir dagsins voru seinni leikir helgarinnar milli liðanna sem léku. Annars vegar voru það Afturelding og KA sem mættust að Varmá og hins vegar Þróttur Nes og Þróttur Reykjavík sem mættust í Neskaupstað. KA og Þróttur Nes unnu leiki gærdagsins en leikur Þróttara fór alla leið í oddahrinu.

Leikur Aftureldingar og KA í gær var nokkuð jafn en KA vann þó 1-3 og náði í öll þrjú stigin. Afturelding þurfti nauðsynlega á sigri að halda í dag til að missa KA ekki of langt frá sér en gestirnir frá Akureyri byrjuðu mun betur. Þær höfðu átta stiga forystu um miðja fyrstu hrinu en Afturelding saxaði smám saman á forystuna. Þær minnkuðu muninn í eitt stig í stöðunni 20-21 en komust ekki nær. KA vann hrinuna 21-25 og leiddi 0-1.

Í annarri hrinu gekk mun betur hjá heimakonum sem náðu 4-0 forystu. Um miðja hrinu var KA þó búið að jafna leikinn og var seinni hluta hrinunnar æsispennandi. Afturelding var í góðri stöðu, 23-21 yfir, þegar KA náði mikilvægu áhlaupi og skoraði næstu fjögur stig. Það þýddi að KA vann 23-25 sigur og náði 0-2 forystu í leiknum. KA valtaði svo yfir lið Aftureldingar í þriðju hrinu og tryggði sér 0-3 sigur með því að vinna hrinuna 10-25.

Stigahæst í liði Aftureldingar var Thelma Dögg Grétarsdóttir sem skoraði 15 stig en María Rún Karlsdóttir bætti við sex stigum. Paula Del Olmo Gomez skoraði, líkt og Thelma, 15 stig fyrir KA og Helena Kristín Gunnarsdóttir skoraði 10 stig. KA er nú með 11 stiga forystu á toppi deildarinnar en Afturelding á tvo leiki til góða og getur minnkað muninn í næstu leikjum sínum.

Þróttur Nes tók á móti Þrótturum frá Reykjavík í seinni leik dagsins og höfðu gestirnir mikla yfirburði í fyrstu hrinu leiksins. Þær komust 2-12 yfir og litu ekki til baka eftir það. Þróttur Reykjavík vann hrinuna 16-25 og leiddi leikinn 0-1.

Önnur hrina virtist vera að fara sömu leið þegar Þróttur Reykjavík komst 4-10 yfir í upphafi hrinu. Heimakonur tóku þá við sér og náðu að jafna 14-14. Gestirnir voru þó fljótir að ná forystunni aftur og unnu að lokum öruggan 19-25 sigur.

Þriðja hrinan var hnífjöfn og skiptust liðin á að hafa forystuna. Þróttur Nes náði 19-17 forystu undir lokin en Þróttarar úr Reykjavík voru sterkari á lokakaflanum. Þróttur Nes var ekki langt undan en Reykvíkingar unnu hrinuna 23-25 og tryggðu þar með 0-3 sigur.

Ester Rún Jónsdóttir var stigahæst hjá Þrótti Nes með 8 stig en Amelía Rún Jónsdóttir skoraði 5 stig. Eldey Hrafnsdóttir var öflug hjá Þrótti Reykjavík og skoraði 18 stig en næst kom Cristina Oliveira Ferreira með 10 stig. Þróttur Reykjavík er nú með 10 stig í 4. sæti en Þróttur Nes er í 5. sætinu með sex stig.

KA, HK og Þróttur Nes hafa öll spilað níu leiki á meðan að Afturelding, Þróttur Reykjavík og Álftanes hafa einungis spilað sjö leiki. Stöðutaflan mun því líklega breytast að einhverju leiti þegar liðin vinna þessa tvo leiki upp en það verður þó ekki fyrr en eftir áramót.

Þessir leikir voru þeir síðustu í Mizunodeild kvenna þetta árið en fyrri hluti tímabilsins verður gerður upp á blaðamannafundi BLÍ þann 18. desember. Bestu leikmenn fyrri hluta tímabilsins verða verðlaunaðir en einnig verður tilkynnt um valið á blakfólki ársins 2019. Nánar má lesa um fundinn í tilkynningu BLÍ.