[sam_zone id=1]

Þróttur Nes á toppinn

Einn leikur fór fram í Mizunodeild karla en Þróttur Nes sótti Vestra heim á Ísafjörð.

Leikir Vestra hafa farið batnandi eftir afar erfiða byrjun á tímabilinu og er framlag Mateuz Klóska þeim gríðarlega mikilvægt. Hann er aðalvopn þeirra í sókn og hefur gefið liðinu mikið í þeim leikjum sem hann hefur spilað. Þróttur Nes er hins vegar á miklu skriði og höfðu unnið fjóra leiki í röð fyrir leik dagsins.

Fyrsta hrina leiksins var mjög jöfn og skiptust liðin á að hafa forystuna. Forysta liðanna var þó aldrei mikil og var mikið jafnræði milli þeirra. Undir lok hrinunnar voru heimamenn sterkari og náðu að knýja fram 27-25 sigur. Allt lofaði góðu fyrir heimamenn á þessum tímapunkti leiksins en gestirnir áttu eftir að svara vel fyrir sig.

Önnur hrina leiksins var einstaklega merkileg en heimamenn byrjuðu aftur vel. Þeir skoruðu sex stig í röð snemma í hrinunni og breyttu stöðunni úr 7-10 í 13-10. Eftir þetta virtist allur vindur úr leikmönnum Vestra og var nú komið að Þrótturum að komast á gott skrið. Staðan var 15-11 þegar áhlaup gestanna hófst og að því loknu var staðan 15-20. Þessi níu stig í röð reyndust meira en nóg og Þróttur vann hrinuna örugglega, 17-25.

Næstu tvær hrinur voru í báðar mjög svipaðar og voru Þróttarar mun sterkari. Þeir byggðu upp gott forskot sem Vestri náði ekki að ógna. Hrinunum lauk 16-25 og 15-25 fyrir Þrótt Nes sem vann leikinn þar með 1-3 og náði í öll þrjú stigin.

Upplýsingar um tölfræði leiksins eru ansi óáreiðanlegar þegar þessi frétt er skrifuð og verður vonandi bætt úr því sem fyrst.

Lið Þróttar Nes er nú komið á topp Mizunodeildar karla en þeir eru með 21 stig eftir níu leiki. Skammt á eftir þeim kemur lið HK sem er með 19 stig eftir átta leiki. HK mætir Aftureldingu þann 18. desember og gæti með sigri skotist aftur upp fyrir Þróttara. Vestri situr á botni deildarinnar með þrjú stig eftir átta leiki.

Bæði lið eru nú komin í jólafrí en Vestri mætir KA tvívegis dagana 11. og 12. janúar. Næsti leikur Þróttar verður heimaleikur gegn HK þann 11. janúar, þar sem að barist verður um toppsæti deildarinnar.