[sam_zone id=1]

Afturelding vann í sveiflukenndum leik

Þróttur Reykjavík tók á móti liði Aftureldingar í Mizunodeild kvenna í kvöld.

Þróttur Reykjavík hefur spilað fæsta leiki allra liða í deildinni eða einungis þrjá. Afturelding hefur þó einungis spilað fjóra leiki en hafði unnið þá alla og var með fullt hús stiga fyrir kvöldið. Þróttur Reykjavík var í 4. sæti deildarinnar og Afturelding í 2. sæti.

Afturelding byrjaði leikinn frábærlega og náði strax góðri forystu í upphafi fyrstu hrinu. Thelma Dögg Grétarsdóttir fór fyrir liðinu en hún skoraði 8 stig í fyrstu hrinunni einni og sér. Afturelding hélt Þrótturum frá sér alla hrinuna og vann sannfærandi sigur, 18-25.

Þróttarar komu mun sterkari inn í aðra hrinu og um miðja hrinu kom frábær kafli hjá þeim. Þróttur náði sex stiga forystu, 15-9, en Afturelding saxaði smám saman á forystuna. Jafnt var 20-20 en heimakonur skoruðu síðustu fimm stig hrinunnar og vann hana 25-20. Þetta var einungis önnur hrinan sem Afturelding tapaði í deildinni hingað til.

Þriðja hrinan var nokkuð jöfn allan tímann og skiptust liðin á að hafa forystuna. Góðar uppgjafir Þróttara gerðu Aftureldingu erfitt fyrir en gestirnir unnu hrinuna þó 23-25 eftir spennandi lokakafla.

Fjórða hrina var ansi sérstök en það voru Þróttarar sem skoruðu fyrsta stigið. Eftir það kom einhver ótrúlegasta uppgjafahrina sem sést hefur en Ana Maria, uppspilari Aftureldingar, var í uppgjöf frá stöðunni 1-1 þangað til Afturelding leiddi 1-20, og skoraði alls 10 ása! Afturelding vann hrinuna að lokum 5-25 og leikinn þar með 1-3.

Cristina Oliveira Ferreira var stigahæst Þróttara með 10 stig en Eldey Hrafnsdóttir og María Gunnarsdóttir skoruðu 8 stig hvor. Thelma Dögg Grétarsdóttir var stigahæst í liði Aftureldingar með 24 stig, María Rún Karlsdóttir bætti við 16 stigum og Ana Maria skoraði 15 stig, þar af 14 beint úr uppgjöf.

Afturelding er því enn með fullt hús stiga og hafa unnið alla fimm leiki sína. Þær eru með 15 stig í 2. sæti deildarinnar en KA eru rétt á undan með 17 stig. KA hefur spilað sex leiki og unnið þá alla, en þó einn þeirra eftir oddahrinu. Þróttur Reykjavík er í 4. sæti með fjögur stig eftir fjóra leiki.

Þróttur Reykjavík mætir HK þann 4. desember næstkomandi en Afturelding mætir toppliði KA tvívegis helgina 14.-15. desember. Leikirnir tveir fara fram að Varmá í Mosfellsbæ og verður um sannkallaðan toppslag að ræða.