[sam_zone id=1]

Fyrsti sigur Vestra kom gegn Aftureldingu

Tveir leikir fóru fram í Mizunodeild karla í dag og náði Vestri í sinn fyrsta sigur í efstu deild.

Vestri tók á móti Aftureldingu í fyrri leik dagsins en liðin mættust einnig í gær. Þá vann Afturelding 1-3 sigur og vann þar með sinn annan sigur í röð. Afturelding virtist ætla að sækja sinn þriðja sigur í röð en liðið komst í 2-12 í fyrstu hrinu leiksins. Heimamenn náðu þó að saxa jafnt og þétt á forystuna og unnu ótrúlegan 25-23 sigur eftir mikla spennu undir lokin.

Afturelding virtist ekki ná sér almennilega á strik í kjölfarið og vann Vestri aðra hrinuna 25-21. Lið Vestra var þar með búið að ná sér í að minnsta kosti eitt stig og fyrsti sigur liðsins vel raunhæfur. Afturelding minnkaði muninn með 24-26 sigri í þriðju hrinu og vann fjórðu hrinuna 23-25 eftir aðra jafna hrinu. Því þurfti oddahrinu til að skera úr um sigurvegara.

Vestri leiddi oddahrinuna alveg frá upphafi og vann 15-11 sigur. Vestri vann þar með sinn fyrsta leik á tímabilinu og sinn fyrsta sigur í efstu deild. Mateusz Klóska var frábær fyrir Vestra og skoraði 31 stig en Juan Manuel Escalona Rojas bætti við 16 stigum. Quentin Moore var allt í öllu hjá Aftureldingu og skoraði 29 stig en næstur kom Sigþór Helgason með 12 stig.

Þróttur Nes og Álftanes mættust einnig öðru sinni þessa helgina í Neskaupstað. Þróttur vann 3-2 sigur í gær og var því búist við öðrum spennandi leik í dag. Eftir jafna fyrstu hrinu skoraði Álftanes síðustu fjögur stigin og vann 21-25 sigur. Heimamenn komu svo sterkir til baka í annarri hrinu og unnu hana 25-20.

Jafnt var um miðja þriðju hrinu en Þróttarar stungu af í seinni hluta hennar. Þeir unnu hrinuna 25-20 og leiddu því 2-1. Fjórða hrinan var keimlík þriðju hrinunni en þar hafði Þróttur Nes betur, 25-19. Þróttarar unnu leikinn þar með 3-1 og taka öll þrjú stigin.

Jesus Montero var stigahæstur heimamanna með 22 stig og Miguel Angel Ramos Melero bætti við 17 stigum. Hjá Álftanesi skoruðu Róbert Karl Hlöðversson og Mason Casner 17 stig hvor.

Þróttur Nes er nú í öðru sæti deildarinnar með 18 stig, einungis einu stigi á eftir HK. Álftanes er í þriðja sætinu með 12 stig og Afturelding í fjórða sætinu með 9 stig. KA kemur þar skammt á eftir með 8 stig og Vestri rekur lestina með 3 stig. KA og Vestri hafa spilað 7 leiki en önnur lið hafa spilað átta leiki.

Þann 30. nóvember mætast Vestri og Þróttur Nes á Ísafirði en önnur lið fá lengra hlé. Álftanes fær KA í heimsókn þann 14. desember og HK mætir Aftureldingu í Fagralundi 18. desember í síðasta leik ársins í Mizunodeildunum.

Mynd fengin af Facebook síðu blakdeildar Vestra.