[sam_zone id=1]

Norðankonur enn ósigraðar á toppnum

Alls fóru fimm leikir fram í Mizunodeildum karla og kvenna í dag um allt land.

Í Neskaupstað tók Þróttur Nes á móti Álftanesi, á Ísafirði mættust Vestri og Afturelding og í Kópavogi áttust HK og KA við. Tvíhöfðar voru í Neskaupstað og Kópavogi og var því nóg um að vera.

Í Neskaupstað hófu kvennaliðin leik og mættust þar tvö lið sem hafa átt erfitt uppdráttar það sem af er tímabili. Liðin voru í tveimur neðstu sætum deildarinnar þar sem að Álftanes hafði unnið einn leik en Þróttarar voru enn án sigurs. Þróttur Nes byrjaði leikinn þó af miklum krafti og vann fyrstu hrinu eftir að hafa leitt nánast allan tímann.

Álftanes lék mun betur í annarri hrinu og vann hana auðveldlega, 14-25, en Þróttur náði aftur forystunni í leiknum með því að vinna þriðju hrinu 25-21. Fjórða hrinan var æsispennandi og skiptust liðin á að hafa forystuna seinni hluta hennar. Það voru svo heimakonur sem skoruðu síðustu 3 stig hrinunnar og unnu hana 25-23. Þróttur Nes náði þar með í sinn fyrsta sigur á tímabilinu.

Ester Rún Jónsdóttir og Heiða Elísabet Gunnarsdóttir voru stigahæstar í liði Þróttar og skoruðu 13 stig hvor en Sladjana Smiljanic var mjög öflug í liði Álftaness og skoraði 22 stig. Astrid Ericsson bætti við 18 stigum fyrir Álftanes.

Í Kópavogi mættust HK og KA en þessi sömu lið mættust fyrir stuttu og fór sá leikur alla leið í oddahrinu. Henni lauk með sigri KA sem sátu á toppi deildarinnar með fimm sigra úr jafn mörgum leikjum. Gestirnir frá Akureyri áttu ekki í miklum vandræðum í fyrstu hrinu leiksins og unnu hana 20-25, þrátt fyrir fínan sprett HK undir lokin.

HK átti fína kafla í annarri hrinu og vann hana 25-23 en eftir það var leikurinn í höndum KA. Gestirnir frá Akureyri yfirspiluðu HK sem átti afar erfitt uppdráttar. KA vann næstu tvær hrinur, 15-25 og 11-25, og vann leikinn því 1-3. Sara ósk Stefánsdóttir skoraði 11 stig fyrir HK og Matthildur Einarsdóttir skoraði 10 stig. Paula Del Olmo Gomez var óstöðvandi og skoraði 21 stig en auk þess bætti Helena Kristín Gunnarsdóttir við 16 stigum.

Eftir daginn er KA í toppsæti deildarinnar með sex sigra úr jafn mörgum leikjum og HK er í þriðja sætinu með þrjá sigra úr sjö leikjum. Lið Aftureldingar er að vísu einnig ósigrað en þær hafa einungis spilað fjóra leiki. Þróttur Nes og Álftanes eru í 5. og 6. sæti deildarinnar með einn sigur hvor. Álftanes hefur þó aðeins spilað fimm leiki á meðan að Þróttur hefur spilað sjö.

Karlamegin voru þrír leikir á dagskrá. Þróttur Nes og Álftanes höfðu bæði unnið fjóra af sex leikjum sínum og mættust innbyrðis í Neskaupstað. Þá mætti Vestri Aftureldingu á Ísafirði og HK tók á móti KA í Kópavogi.

Afturelding vann frábæran sigur á KA í vikunni og gat með sigri á Ísafirði hleypt miklu lífi í deildarkeppnina. Vestri byrjaði vel en Afturelding náði fljótt forystunni og vann fyrstu hrinu 24-26 eftir spennandi lokakafla. Vestri lék vel í annarri hrinu og vann sannfærandi 25-17 sigur. Næstu tvær hrinur voru nokkuð líkar en þar var jafnt framan af en Afturelding reyndist sterkari undir lokin.

Afturelding vann seinni tvær hrinur leiksins báðar 21-25 og tryggði sér þar með 1-3 sigur og annan sigurinn í röð. Mateusz Klóska var frábær í liði Vestra en hann skoraði 29 stig. Hafsteinn Már Sigurðsson bætti við 17 stigum. Í liði Aftureldingar var Sigþór Helgason stigahæstur með 20 stig og Quentin Moore skoraði 15 stig.

Þróttarar byrjuðu af miklum krafti á heimavelli og náðu 1-0 forystu með 25-22 sigri í fyrstu hrinu leiksins. Í annarri hrinu unnu heimamenn aftur eftir jafna hrinu, 25-20, en þá vöknuðu gestirnir aldeilis til lífsins. Álftanes vann næstu tvær hrinur, 24-26 og 19-25, og kom leiknum í oddahrinu. Þar reyndust heimamenn þó sterkari sem unnu 15-10 sigur.

Hinir spænsku Jesus Montero og Miguel Ramos voru öflugastir í liði Þróttar en Jesus skoraði 18 stig og Miguel 16 stig. Í liði Álftaness var Róbert Karl Hlöðversson stigahæstur með 20 stig, Austris Bucovskis skoraði 19 stig og Mason Casner bætti við 18 stigum.

Að lokum mættust HK og KA í Fagralundi. Þessi sömu lið mættust fyrir 10 dögum og þá hafði KA betur. Liðið vann þá 3-1 sigur á heimavelli og voru HK-ingar staðráðnir í að hefna fyrir tapið. KA byrjaði þó mun betur í leiknum og vann fyrstu hrinu leiksins örugglega, 20-25. Eftir það gekk leikur HK betur upp sem náðu að setja mikla pressu á KA með góðum uppgjöfum.

KA lenti í miklum vandræðum með sóknarleikinn í kjölfarið á vandræðum sínum í móttöku en sóknarleikur liðsins er aðalvopn þeirra. HK náði þó að halda þeim í skefjum og unnu næstu þrjár hrinur nokkuð sannfærandi (25-15, 25-22 og 25-16). Andreas Hilmir Halldórsson var stigahæstur í liði HK með 18 stig og bróðir hans, Elvar Örn Halldórsson, bætti við 13 stigum. Miguel Mateo Castrillo skoraði 24 stig fyrir KA og Alexander Arnar Þórisson skoraði 13 stig.

Eftir daginn er HK enn á toppi deildarinnar með sjö sigra úr átta leikjum og 19 stig en Þróttur Nes er með fimm sigra úr sjö leikjum og 15 stig. Álftanes kemur þar rétt á eftir með fjóra sigra úr sjö leikjum og 12 stig. KA og Afturelding eru bæði með átta stig en KA hefur unnið þrjá leiki á meðan að Afturelding hefur unnið tvo. Vestri rekur svo lestina án sigurs.

Á morgun verður aftur leikið á Ísafirði og í Neskaupstað. Leikur Vestra og Aftureldingar hefst klukkan 12:00 en leikur Þróttar Nes og Álftaness klukkan 13:00.

Mynd : A & R Photos