[sam_zone id=1]

Afturelding náði í sinn fyrsta sigur á Akureyri

KA tók á móti liði Aftureldingar í Mizunodeild karla í kvöld.

Í síðustu viku mætti KA liði HK og vann góðan 3-1 sigur en nú var komið að Aftureldingu að heimsækja þá á Akureyri. Afturelding hafði enn ekki unnið leik en KA gat nálgast topp deildarinnar með sigri.

Gestirnir úr Mosfellsbæ byrjuðu leikinn mjög vel og komust strax 2-6 yfir í fyrstu hrinu. Eftir það jafnaðist leikurinn mikið en KA náði þó ekki að saxa á forystu Aftureldingar. Munurinn var alltaf að minnsta kosti tvö stig og Afturelding vann hrinuna 19-25.

Sömu sögu var að segja í annarri hrinu þar sem að Afturelding leiddi 2-7 í upphafi. Afturelding nýtti fjölbreytnina í sínu liði á meðan að spil KA var heldur einhæft. Undir lok hrinunnar komst KA hins vegar loks í gang og eftir góðan kafla jöfnuðu þeir 22-22, eftir að hafa verið 7 stigum undir skömmu áður. Það dugði þó ekki til og Afturelding kláraði hrinuna 23-25 og náði 0-2 forystu.

Í þriðju hrinu héldu KA áfram að bæta sitt spil en Sigþór Helgason hélt Aftureldingu inn í hrinunni og skoraði nánast öll stig gestanna í upphafi hrinunnar. Afturelding hélt í við heimamenn sem höfðu þó forystuna út hrinuna. KA vann 25-20 í þriðju hrinu og héldu sér á lífi.

Afturelding tók strax við sér í byrjun fjórðu hrinu og á sama tíma virtust heimamenn algjörlega einbeitingarlausir. Eftir 0-5 byrjun hjá Aftureldingu vaknaði KA þó smám saman og jafnaði 14-14. Spennan var mikil undir lok hrinunnar og gerðu bæði lið töluvert af mistökum. Afturelding setti mikla pressu á KA með sterkum uppgjöfum og kláraði hrinuna 22-25. Þar með vann Afturelding leikinn 1-3 og tryggði sér sinn fyrsta sigur þennan veturinn.

Miguel Mateo Castrillo var sem fyrr stigahæstur í liði KA en hann skoraði 24 stig. Sigþór Helgason átti frábæran leik gegn sínum gömlu félögum í KA en hann skoraði 21 stig og var stigahæstur í liði Aftureldingar.

Afturelding er nú með einn sigur og fimm stig eftir sex leiki en KA er með þrjá sigra og átta stig eftir sex leiki. Bæði lið eiga leiki um helgina en KA mætir í Kópavog og mætir þar HK öðru sinni á stuttum tíma. Afturelding sækir Vestra heim á laugardag og mætir þeim svo aftur á sunnudag.