[sam_zone id=1]

KA og Álftanes með sigra í Mizunodeild karla

Tveir leikir voru á dagsskrá í Mizunodeild karla í kvöld en fyrri leikur kvöldsins var viðureign Aftureldingar og Álftaness og fór sá leikur fram í Mosfellsbæ.

Gestirnir frá Álftanesi fóru vel af stað í leiknum en með sigri í fyrstu tveimur hrinum leiksins, 25-19 þá komu þeir sér í ansi vænlega stöðu. Heimamenn voru hinsvegar ekki á því að gefast upp og unnu næstu tvær hrinur nokkuð auðvelt, 25-17 og 25-18 og jafna þar með leikinn 2-2.

Eftir að hafa lent undir 0-4 í oddahrinunni þá náði Afturelding hægt og rólega að koma sér aftur inní leikinn og eftir jafnan leik og flott spil beggja liða þá jafnar Afturelding 10-10. Afturelding kemst svo yfir 12-10 áður en Álftanes tekur sitt annað leikhlé. Lokakaflinn var æsispennandi en þar hafði Álftanes loks betur 18-16.

Álftanes er eftir leikinn í 3. sæti með 11 stig eftir 6 leiki. Afturelding er hinsvegar í 5. og næst neðsta sæti með aðeins 2 stig eftir 5 leiki en Afturelding hefur ekki farið vel af stað í vetur og ekki enn náð að vinna leik.

Því miður er ekki aðgengilegt stigaskor úr leiknum og því ekki hægt að greina til um stigahæstu leikmenn leiksins.

Seinni leikur kvöldsins var svo viðureign KA og HK en leikið var á Akureyri. HK hafði fyrir leikinn í kvöld ekki tapað deildarleik í vetur og því í ansi góðri stöðu á toppi deildarinnar.

Það voru hinsvegar KA sem fóru betur af stað í leiknum og unnu fyrstu hrinu 25-20. HK beit frá sér með sigri í annarri hrinu en KA menn snéru svo aftur við blaðinu í þriðju hrinu með afgerandi sigri 25-8 en gestirnir frá Kópavogi sáu ekki til sólar í hrinunni. KA kláraði svo leikinn með sigri í fjórðu hrinu 25-20 og eru því fyrsta liðið í vetur til að leggja HK af velli.

KA er eftir leikinn í kvöld með 8 stig í 4.sæti eftir 4 leiki. HK er enn á toppi deildarinnar með 16 stig eftir 6 leiki.

Stigahæstur í leiknum var Miguel Mateo Castrillo leikmaður KA með 27 stig. Stigahæstur í liði HK var Valens Torfi Ingimundarson með 8 stig.