[sam_zone id=1]

Þróttaraslagur í Laugardalshöll

Þróttur Reykjavík tók í dag á móti Þrótti úr Neskaupstað í Mizunodeild kvenna.

Fyrir leikinn voru þessi tvö lið í tveimur neðstu sætum deildarinnar og voru án sigurs. Þróttur Reykjavík hafði þó einungis spilað tvo leiki en Þróttur Nes hafði spilað 5 leiki. Tvo öfluga leikmenn vantaði í lið gestanna í dag en þær Simona Usic og Tinna Rut Þórarinsdóttir voru ekki með liðinu.

Mjög jafnt var til að byrja með í fyrstu hrinu leiksins og skiptust liðin á að taka forystuna. Fljótlega komust heimakonur þó á mikið skrið og uppgjafir frá Tinnu Sif áttu þar stóran þátt. Eftir þrjá ása í röð frá Tinnu var staðan orðin 15-8 og var eftirleikurinn auðveldur. Þróttur Reykjavík vann fyrstu hrinu 25-15 og leiddi 1-0.

Reykvíkingar héldu áfram að þjarma að gestunum og leiddu 6-1 í annarri hrinu. Þrátt fyrir að Þróttur Nes minnkaði muninn héldu heimakonur forystunni og varð mest 11 stiga munur í hrinunni. Þróttur Reykjavík vann aðra hrinuna sannfærandi, 25-17, og höfðu mikla yfirburði í leiknum.

Þróttur Nes kom af miklum krafti í þriðju hrinu og náði 0-4 forystu til að byrja hrinuna. Heimakonur jöfnuðu strax í 6-6 og var mikið jafnræði með liðunum stærstan hluta hrinunnar. Undir lokin seig Þróttur Reykjavík þó fram úr og vann öruggan 25-18 sigur. Þær unnu leikinn því 3-0 og náðu í sinn fyrsta sigur á tímabilinu.

Elísabet Nhien Yen Huynh og Cristina Oliveira Ferreira skoruðu 12 stig hvor fyrir Þrótt Reykjavík og Eldey Hrafnsdóttir bætti við 10 stigum. Heiða Elísabet Gunnarsdóttir var stigahæst í liði gestann með 9 stig en Eyrún Sól Einarsdóttir skoraði 6 stig.

Með sigrinum lyftir Þróttur Reykjavík sér upp í 4. sæti deildarinnar og á enn leiki til góða. Þróttur Nes leitar enn að fyrsta sigri sínum og hafa nú tapað öllum sex leikjum sínum. Þróttur Nes fær Álftanes í heimsókn 23. nóvember en Þróttur Reykjavík á heimaleik gegn Aftureldingu þann 27. nóvember.