[sam_zone id=1]

Afturelding og KA enn ósigruð

Tveir leikir fóru fram í Mizunodeild kvenna í kvöld, annar í Mosfellsbæ en hinn á Akureyri.

Afturelding tók á móti liði Álftaness fyrr í kvöld en Afturelding hafði unnið alla þrjá leiki sína. Álftanes var hins vegar með einn sigur eftir þrjá leiki. Fyrsta hrina var nokkuð sveiflukennd en Álftanes náði þó aldrei forystunni í hrinunni. Afturelding náði nokkurra stiga forystu og svo jafnaði Álftanes leikinn. Þannig gekk það út hrinuna sem Afturelding vann þó á endanum 25-19.

Álftanes byrjaði betur í annarri hrinunni en fljótt voru heimakonur þó komnar aftur í forystuna. Lokin voru þó mun meira spennandi en í fyrstu hrinunni þó að Afturelding hafi einnig náð að vinna hrinuna, en nú var lokastaðan 25-23 og Afturelding með sterka 2-0 forystu. Um algjöra einstefnu var svo að ræða í þriðju hrinu sem Afturelding vann 25-10 og vann leikinn 3-0.

Afturelding komst á topp deildarinnar í stutta stund, eða allt þar til leik KA og HK lauk á Akureyri. Afturelding er með fullt hús eftir 4 leiki en Álftanes er enn með einn sigur eftir fjóra leiki. Engin tölfræði er aðgengileg úr leiknum.

Næsti leikur Aftureldingar er ekki fyrr en 27. nóvember en þá sækir liðið Þrótt Reykjavík heim. Næsti leikur Álftnesinga verður útileikur gegn Þrótti Neskaupstað þann 23. nóvember.

Á Akureyri mættust svo KA og HK. KA var á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, 12 stig úr fjórum leikjum. HK var í þriðja sæti deildarinnar með þrjá sigra í fimm leikjum. Liðin mættust í upphafi tímabils þegar leikið var í Meistarakeppni BLÍ og þá vann KA 3-2.

Í fyrstu hrinu leiksins var lið HK sterkara frá upphafi og leiddi nánast alla hrinuna. HK vann fyrstu hrinu 18-25 og leit vel út. Þetta breyttist þó algjörlega í næstu hrinum en þá valtaði KA yfir gestina. Hrinunum lauk 25-11 og 25-14 fyrir KA og nú benti allt til þess að KA héldi fullu húsi stiga með 3-1 sigri.

Það var þó ekki raunin þar sem að HK vöknuðu aftur til lífsins í fjórðu hrinunni, sem var æsispennandi. KA byrjaði mjög vel en HK náði forystunni rétt fyrir miðbik hrinunnar. HK vann 23-25 eftir flottan lokakafla og leikurinn fór því í oddahrinu.

HK byrjaði frábærlega í oddahrinunni en þegar þær voru 2-6 yfir settu KA í lás. Á sex stiga kafla skoruðu KA fimm ása úr uppgjöf og þar af skoraði Andrea Þorvaldsdóttir fjóra þeirra. Þá var staðan orðin 9-6, KA í vil, og hélt KA því út hrinuna. Þær unnu 15-10 og unnu leikinn þar með 3-2. KA er því enn ósigrað, líkt og Afturelding, og er á toppi deildarinnar með 5 sigra eftir 5 leiki. HK er í þriðja sætinu með þrjá sigra eftir 6 leiki.

Paula Del Olmo Gomez var öflug í liði KA og skoraði 26 stig. Helena Kristín Gunnarsdóttir bætti við 12 stigum fyrir liðið. Hjá HK var Matthildur Einarsdóttir stigahæst með 13 sig og Arna Sólrún Heimisdóttir bætti við 10 stigum.

Þessi sömu lið mætast aftur þann 23. nóvember, þá á heimavelli HK í Fagralundi. Má búast við mikilli spennu og frábærri skemmtun þar sem að tveir leikir liðanna hafa báðir farið alla leið í oddahrinu.