[sam_zone id=1]

Þróttur Nes vann aftur í Mosfellsbæ

Afturelding og Þróttur Nes mættust öðru sinni í dag og fór leikurinn fram að Varmá.

Þróttur Nes vann leik gærdagsins 1-3 en í dag var lið Aftureldingar án Piotr Kempisty, sem meiddist í fjórðu hrinunni í gær. Í dag voru það gestirnir sem byrjuðu betur og náðu 3-7 forystu í fyrstu hrinunni. Kristján Pálsson fór mikinn á miðjunni hjá Þrótti og auk þess átti Afturelding í vandræðum með móttöku.

Þróttarar náðu ekki að slíta sig frá liði Aftureldingar en héldu þó nokkuð öruggri forystu út hrinuna. Undir lok hrinunnar náði Afturelding hins vegar góðum kafla og jafnaði 22-22 og áttu góðar uppgjafir Quentin Moore stóran þátt í endurkomunni. Galdur Máni kláraði hrinuna þó fyrir Þrótt Nes með ás beint úr uppgjöf og Þróttur vann 22-25.

Þróttarar náðu forystunni fljótlega í annarri hrinu og leiddu fram undir miðbik hrinunnar. Þá kom frábær kafli hjá Aftureldingu sem náði forystunni, 17-16. Þá tóku Þróttarar leikhlé sem skilaði heilmiklu og örstuttu seinna var staðan orðin 17-20 fyrir Þrótt Nes. Þróttarar voru öflugri undir lokin og unnu hrinuna 21-25 eftir frábæran lokakafla.

Mikið jafnræði var með liðunum í þriðju hrinu og skiptust þau á stigum þar til staðan var 12-12. Þá áttu Þróttarar frábæran kafla og enn áttu heimamenn í vandræðum með móttökuna. Einnig var hávörnin hjá Þrótti mjög góð og þeir höfðu mikla yfirburði í seinni hluta hrinunnar. Þrátt fyrir einbeitingarleysi undir lokin vann Þróttur hrinuna 20-25 og leikinn þar með 0-3.

Quentin Moore skoraði 12 stig fyrir Aftureldingu og Matheusz Blic skoraði 10 stig. Miguel Angel Ramos Melero var stigahæstur allra en hann skoraði 15 stig fyrir Þrótt Nes. Jesus Montero Romero bætti við 14 stigum og Galdur Máni Davíðsson skoraði 12 stig, þar af sex úr hávörn.

Þróttur Nes sækir því sex stig af sex mögulegum þessa helgina og sitja nú í öðru sæti deildarinnar með fjóra sigra og 13 stig eftir sex leiki. Afturelding er enn í 5. sæti deildarinnar með einungis eitt stig eftir fjóra leiki. Næsta miðvikudag fær Afturelding lið Álftaness í heimsókn en Þróttur Nes fær dágóða pásu og leikur næst tvo heimaleiki dagana 23. og 24. nóvember gegn Álftanesi.