[sam_zone id=1]

KA heldur toppsætinu í Mizunodeild kvenna

Þrír leikir fóru fram í Mizunodeildunum í dag og þar af voru tveir þeirra í Mosfellsbæ.

Þróttur Nes heimsótti Aftureldingu í karla- og kvennaflokki en á Akureyri tók KA á móti Þrótti Reykjavík í Mizunodeild kvenna. Kvennamegin var KA í efsta sæti deildarinnar, Afturelding í 3. sæti og Þróttur Nes í neðsta sæti deildarinnar. Karlamegin var lið Þróttar Nes í 3. sæti og Afturelding í 5.sæti deildarinnar.

Karlaleikurinn var sá fyrsti á dagskrá og heimamenn byrjuðu leikinn vel. Þeir byggðu smám saman upp góða forystu og höfðu nokkra yfirburði í hrinunni. Hana unnu þeir 25-19 eftir að Þróttarar höfðu lagað stöðuna undir lok hrinunnar. Leikurinn snerist svo við í annarri hrinu en þar leiddu Þróttarar frá því um miðja hrinu og unnu 20-25.

Í þriðju hrinu náði lið Þróttar 5 stiga forystu um miðja hrinuna en Afturelding jafnaði 17-17 og lokakaflinn var æsispennandi. Að lokum höfðu Þróttarar betur og unnu 25-27. Fjórða hrinan var eign Þróttara og endurkoma Aftureldingar um miðja hrinu dugði ekki til. Þróttur Nes vann hrinuna 17-25 og vann leikinn því 1-3.

Tölfræði úr leiknum er ekki til staðar. Þróttur Nes situr nú í öðru sæti deildarinnar með þrjá sigra úr fimm leikjum og 10 stig alls. Afturelding er í 5. sæti deildarinnar og er án sigurs eftir þrjá leiki, sem hafa þó allir verið nokkuð jafnir. Liðin mætast aftur á morgun og hefst sá leikur klukkan 13:00. Þá mætast karlalið KA og Vestra á Akureyri einnig klukkan 13:00.

Kvennalið félaganna mættust einnig í Mosfellsbæ og heimakonur byrjuðu leikinn vel. Þær leiddu 18-12 eftir að hafa smám saman byggt upp forskot en þá kom flottur kafli hjá Þrótti Nes sem breytti stöðunni í 18-17. Afturelding fór þá aftur á skrið og vann hrinuna 25-19. Önnur hrina varð aldrei spennandi og vann Afturelding auðveldan 25-11 sigur í henni.

Þróttarar gáfust þó ekki upp og byrjuðu vel í þriðju hrinu. Mest höfðu þær 4 stiga forystu en Afturelding vann sig fljótt inn í hrinuna og tók forystuna. Seinni hluti hrinunnar var nokkuð sveiflukenndur en Afturelding leiddi 23-18 þegar að Þróttarar komu með áhlaup. Afturelding gerði mikið af mistökum undir lokin en vann hrinuna engu að síður 25-22 og leikinn þar með 3-0.

Thelma Dögg Grétarsdóttir var stigahæst í liði Aftureldingar með 13 stig en María Rún Karlsdóttir kom næst með 6 stig. Tinna Rut Þórarinsdóttir skoraði 8 stig fyrir Þrótt Nes en Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir bætti við 7 stigum.

Afturelding er í öðru sæti deildarinnar og hefur unnið alla þrjá leiki sína. Þróttur Nes er á botni deildarinnar án sigurs eftir fimm leiki. Afturelding mætir næst liði Álftaness og fer sá leikur fram í Mosfellsbæ miðvikudaginn 6. nóvember næstkomandi. Þróttur Nes kemur aftur í heimsókn á höfuðborgarsvæðið næstu helgi þegar liðið mætir Þrótti Reykjavík laugardaginn 9. nóvember.

KA tók svo á móti Þrótti Reykjavík á Akureyri en þar byrjuðu gestirnir af miklum krafti. Þróttur leiddi 4-9 þegar að lið KA komst á gott skrið og skiptust liðin á að hafa forystuna það sem eftir var hrinunnar. Þróttur hafði 20-23 forystu undir lokin en náði ekki að nýta sér það og KA reyndust sterkari á lokakaflanum. KA vann hrinuna 26-24 og leiddi 1-0.

Hnífjafnt var stærstan hluta annarrar hrinu og það var ekki fyrr en undir lok hennar sem að fór að skilja milli liðanna. KA seig fram úr undir lokin og vann nokkuð öruggan sigur, 25-19, þrátt fyrir að jafnt hafi verið 15-15. Þriðja hrinan var einnig jöfn en eins og áður voru KA sterkari undir lokin og unnu hrinuna 25-21 og leikinn 3-0.

Paula Del Olmo Gomez átti stórleik í liði KA og skoraði 25 stig en hún Helena Kristín Gunnarsdóttir, sem skoraði 14 stig, fóru fyrir liði KA. Cristina Oliveira Ferreira var öflug í liði Þróttar og skoraði 17 stig en Eldey Hrafnsdóttir bætti við 11 stigum.

KA eru sem fyrr á toppi deildarinnar með fullt hús stiga og hafa unnið alla fjóra leiki sína. Þróttur Reykjavík hefur einungis spilað tvo leiki og á enn eftir að vinna leik. Þær sitja í 5. sæti deildarinnar, rétt fyrir ofan Þrótt Neskaupstað. Næsti leikur KA verður á heimavelli gegn HK og fer hann fram miðvikudaginn 6. nóvember.