[sam_zone id=1]

Félagaskiptaglugginn lokaður fram að áramótum

Lokað hefur verið fyrir félagaskipti en glugginn opnar aftur þann 1. janúar næstkomandi.

Félagaskiptaglugginn var opinn frá 15. maí til og með 31. október og er því ekki opið fyrir félagaskipti næstu tvo mánuði. Glugginn opnar hins vegar aftur þann 1. janúar og verður opinn til 31. janúar.

Fjöldinn allur af félagaskiptum fór í gegn þetta haustið en stærstur hluti þeirra er til og frá liðum í neðri deildum Íslandsmóts. Með því að smella hér má nálgast slóð á heimasíðu BLÍ sem inniheldur allar helstu upplýsingar um félagaskipti, þar á meðal ítarlegan lista yfir félagaskipti þessa glugga.

Félagaskipti höfðu einnig áhrif á Mizunodeildirnar en nokkur skipti urðu eftir að leiktíðin hófst um miðjan september. Lið í Mizunodeild kvenna höfðu hægt um sig og breyttist landslagið þar lítið, ef eitthvað. Annað var uppi á teningnum í Mizunodeild karla þar sem að Álftanes fór mikinn í glugganum.

Lið Vestra gerði breytingu á liði sínu þar sem að Antonio Fernández Ortiz kom í stað Marc Marín Mateu, en Antonio kemur frá liði VP Madrid á Spáni. Þá fengu Álftnesingar hinn bandaríska Mason Casner til liðs við sig en Mason hefur gert frábæra hluti með liði KA síðustu ár. Ismar Hadziredzepovic og Benedikt Baldur Tryggvason eru einnig komnir yfir til Álftaness eftir stutta dvöl hjá HK.

Nú í vikunni gekk Magnús Ingvi Kristjánsson einnig í lið Álftaness en hann kemur einnig frá HK. Þá flutti Kári Hlynsson sig einnig um set í vikunni og skipti frá HK yfir í Aftureldingu.