[sam_zone id=1]

HK vann Álftanes í toppslag deildarinnar

Álftanes fékk lið HK í heimsókn í kvöld í sannkölluðum toppslag Mizunodeildar karla.

HK var fyrir leikinn í fyrsta sæti deildarinnar með 13 stig eftir 5 leiki en Álftanes kom þar á eftir með 9 stig eftir 4 leiki. Álftanes gat því komið sér upp að hlið HK með sigri. HK byrjaði leikinn hins vegar mjög vel og leiddi 3-8. Álftanes náði að jafna leikinn stuttu seinna og hafði yfirhöndina það sem eftir var. Þeir unnu hrinuna 25-22 þrátt fyrir að HK hefði jafnað 21-21 og hleypt spennu í hrinuna undir lokin.

Í annarri hrinu hélt Álftanes pressunni á liði HK og leiddu 4-0. Aftur snerist leikurinn þá við og nú var það lið HK sem hafði forystuna. Eftir annan spennandi lokakafla vann HK hrinuna 23-25 og tryggði sér mikilvægan sigur í annarri hrinunni. Leikurinn var því orðinn jafn, 1-1.

Sladjana Smiljanic, þjálfari Álftaness, var óhrædd við að gera breytingar á liði sínu en HK kom einnig með mikið breytt lið inn í þriðju hrinu. Janis Novikovs glímdi við meiðsli og uppspilari liðsins, Lúðvík Már, tók hans stöðu sem kantsmassari. Hermann Hlynsson kom inn sem uppspilari og því hófst nánast nýr leikur með tvö mikið breytt lið.

Eitthvað virtist trufla Álftnesinga í þriðju hrinunni og HK hélt pressu á þeim með góðum uppgjöfum og hávörn. Heimamenn gerðu mikið af mistökum og voru fljótlega komnir langt á eftir HK-ingum. Lið HK lék einnig mjög vel og vann hrinuna sannfærandi, 11-25. Fjórða hrinan var öllu meira spennandi en HK hafði þó forystuna stærstan hluta hrinunnar. HK vann 21-25 og vann leikinn því 1-3.

Tölfræði úr leiknum er aðgengileg en þó ekki áreiðanleg þegar þessi orð eru skrifuð og væntanlega verður því kippt í lag fljótlega. Í liði Álftaness voru Róbert Karl Hlöðversson og Austris Bucovskis þó öflugastir og þá fór Andreas Hilmir Halldórsson fyrir liði HK.

HK er enn ósigrað á toppi deildarinnar og er nú með 16 stig eftir 6 leiki. Álftanes situr enn í öðru sætinu með 9 stig eftir 5 leiki. Bæði lið leika næst miðvikudaginn 13. nóvember. Þá sækir HK lið KA heim á Akureyri en Álftanes mætir Aftureldingu í Mosfellsbæ.