[sam_zone id=1]

Ísland mætir Ísrael í strandblaki í nótt

Elísabet Einarsdóttir og Berglind Gígja Jónsdóttir eru mættar til Qinzhou í Kína til þess að taka þátt í þriggja stjörnu FIVB World Tour keppni. Allar World Tour keppnir hjá FIVB eru flokkaðar með stjörnukerfi, frá einni stjörnu og upp í fimm. Með því að taka þátt í World Tour keppnum safna leikmenn sér FIVB stigum sem hjálpa þeim að komast á stór mót og á Ólympíuleika. 

Berglind og Elísabet munu spila um það að komast inn í aðalmótið. Þær spila í svokölluðu qualification round þar sem þær mæta Starikov og Dave frá Ísrael. Starikov og Dave eru með 1426 stig en Berglind og Elísabet eru með 200 stig. Þær ísraelsku hafa því mun meiri reynslu í að spila á alþjóðlegum mótum.

Stelpurnar okkar þurfa að sigra Starikov og Dave til þess að komast inn í aðalmótið. Á aðalmótinu eru stórstjörnur eins og Kerri Lee Walsh Jennings sem á þrjú ólympíugull og eitt ólympíubrons. Liðið sem sigrar mótið vinnur $75.000 eða 9,4 milljónir. 

Mæta Berglind og Elísabet Kerri Walsh Jennings og Brooke Sweat?

Blakfréttir ræddu aðeins við Berglindi og Elísabetu og var hljóðið í þeim mjög gott: 

“Ferðalagið var langt en gekk vel. Við flugum frá Köben-Bejing og svo frá Bejing-Nanning og svo tveggja tíma strætó ferð frá Nanning til Qinzhou! Við erum mjög spenntar! Fullt af góðum liðum hérna meðal annars Kerri Walsh frá USA sem er fyrirmyndin okkar.” 

Ísland og Ísrael mætast kl 1:50 í nótt og Blakfréttir.is hvetur alla til þess að vaka og fylgjast með stelpunum okkar!  Einhverjir leikir verða sýndir hér. Áfram Ísland!