[sam_zone id=1]

Calais á sigurbraut í Frakklandi

Calais lék um helgina sinn þriðja leik í N1 deildinni í Frakklandi en liðið er nýliði í deildinni eftir að hafa sigrað N2 deildina á síðasta tímabili.
Landsliðsmaðurinn Hafsteinn Valdimarsson leikur með liðinu en hann er á sínu þriðja tímabili í Frakklandi.

Liðið lék gegn liði Arlesien en þeir fóru einnig upp um deild í fyrra. Það var því langt ferðalag sem beið liðsmanna Calais til Suður-Frakklands.
Hitinn í suðrinu virtist fara vel í gestina en þeir byrjuðu leikinn af krafti og náðu fljótt forystu í hrinunni. Leikmenn Arlesien voru þó ekki á því að gefast upp og náðu þeir að jafna leikinn 23-23 og æsispennandi lokakafli framundan. Gestirnir voru sterkari á lokakaflanum og unnu hrinuna 24-26.

Önnur hrinan var ekki góð hjá liði Calais og náði Arlesien fljótt forystu í hrinunni. Móttakan var ekki nógu góð hjá liðinu og þar af leiðandi náðu þeir ekki upp sínu góða spili. Arlesien vann hrinuna 25-18 og jafnaði leikinn 1-1.

Calais komu þó brjálaðir til baka en þeir keyrðu yfir gestina í næstu tveimur hrinum móttakan var kominn aftur og liðið gekk eins og smurð vél. Heimamenn í Arlesien áttu fá svör við leik gestanna sem unnu næstu tvær hrinur með sama mun 25-16 og þar með leikinn 3-1.

Eftir umferðina er Calais því í efsta sæti síns riðils með fullt hús stiga og er eina liðið sem hefur unnið alla sína leiki. Frábær byrjun hjá liðinu og vonandi halda þeir þessu áfram.

Hafsteinn var að vanda í byrjunarliði Calais og stóð sig mjög vel í þessum leik en hann hefur verið öflugur í byrjun tímabils með Calais.

Nánari upplýsingar um úrslit og stöðu í deildinni má sjá hér.