[sam_zone id=1]

Sænska deildin farin af stað, Jóna á meiðslalistanum

Sænska úrvalsdeildin er farin af stað og þar eigum við Íslendingar einn fulltrúa eins og síðustu ár en það er landsliðsfyrirliðinn Jóna Guðlaug sem leikur áfram með liði Hylte/Halmstad, en í ár er hún einnig fyrirliði hjá félagsliði sínu.


Deildin hefur þó ekki farið neitt rosalega vel af stað hjá Hylte/Halmstad en liðið hefur tapað tveimur af fyrstu þremur leikjum sínum.

Í fyrstu umferð mætti liðið Sollentuna og beið þar lægri hlut á heimavelli 3-1, næst lék liðið síðan gegn meisturum Engelholm, en lið Engelholm hefur haft nokkra yfirburði síðustu ár í Svíþjóð. Hylte/Halmstad lék betur í þessum leik en það dugði þó ekki að þessu sinni þar sem Engelholm vann leikinn að lokum í oddahrinu.

Það var þó í síðustu umferð sem fyrsti sigurleikurinn kom en það var gegn liði Lindesberg, Hylte/Halmstad hafði tögl og haldir á leiknum og vann að lokum góðan 3-0 sigur.

Jóna Guðlaug hefur enn ekki spilað fyrir Hylte/Halmstad á þessu tímabili þar sem hún er að glíma við meiðsli þessa stundina, en hún varð fyrir því óláni að rífa kálfavöðva. Þetta eru sömu meiðsli og hún var að stríða við á síðustu leiktíð en við vonum að hún nái sér fljótlega af þessum meiðslum og geti komið sér aftur á völlinn.

Nánari úrslit og tölfræði úr deildinni má finna hér.