[sam_zone id=1]

Álftanes með annan sigur á Ísafirði

Vestri og Álftanes mættust í dag öðru sinni þessa helgina í Mizunodeild karla.

Álftanes átti nokkuð auðvelt með lið Vestra í gær og vann öruggan 0-3 sigur. Í dag byrjaði lið Vestra þó mun betur og var fyrsta hrina jöfn og spennandi. Liðin skiptust á að hafa forystuna og voru heimamenn í góðri stöðu undir lok hrinunnar, 23-21 yfir. Álftanes tók hins vegar ekki í mál að tapa hrinu og vann að lokum 25-27.

Næstu tvær hrinur voru ójafnari en í annarri hrinu byrjuðu leikmenn Vestra þó vel. Það var um miðja hrinuna sem Álftnesingar stungu af og unnu hrinuna 16-25. Í þriðju hrinu var þó aldrei spurning hvort liðið færi með sigur. Álftanes komst 0-5 yfir í upphafi hrinunnar og jók muninn smám saman. Þeir unnu 13-25 sigur í hrinunni og unnu leikinn þar með 0-3.

Mateudz Klóska var atkvæðamestur í liði Vestra og skoraði 11 stig en Hafsteinn Már Sigurðsson bætti við 5 stigum. Austris Bucovskis var stigahæstur með 17 stig fyrir Álftanes og Róbert Karl Hlöðversson skoraði 13 stig.

Álftanes sækir því 6 stig á Ísafjörð og geta verið mjög sáttir með ferðina. Þeir sitja nú í 2. sæti deildarinnar með þrjá sigra í fjórum leikjum. Lið Vestra á hins vegar enn eftir að vinna hrinu þrátt fyrir að eiga fína kafla. Leikur þeirra er ekki nógu stöðugur en þeir mæta næst liði KA þann 3. nóvember. Álftanes fær topplið HK í heimsókn þann 1. nóvember næstkomandi þar sem að efstu tvö lið deildarinnar mætast.