[sam_zone id=1]

Aftur vann HK tvöfalt í Fagralundi

Í dag mættust karla- og kvennalið HK og Þróttar Nes í tvíhöfða, líkt og í gær.

Kvennaliðin hófu leik og eftir að hafa tapað 3-0 í gær byrjuðu Þróttarar af miklum krafti. Þróttur var yfir nánast alla hrinuna en HK-ingar gerðu hrinuna spennandi undir lokin. Þróttur vann hrinuna 23-25 og náði 0-1 forystu en liðið skoraði 12 stig úr uppgjöf í fyrstu hrinunni einni og sér.

Leikurinn var nokkuð sveiflukenndur og HK valtaði yfir Þróttara í annarri hrinunni. HK vann hrinuna 25-13 og aftur voru það sterkar uppgjafir sem stjórnuðu leiknum. Þriðja hrinan var jöfn eins og sú fyrsta og var ómögulegt að sjá hvort liðið hefði yfirhöndina. Þróttur var hins vegar sterkari undir lokin og vann 23-25, líkt og í fyrstu hrinunni.

Þróttarar virtust ætla að gera út um leikinn í fjórðu hrinu og voru 14-20 yfir. Þá hófst rosaleg endurkoma HK sem náðu að stela 25-23 sigri í hrinunni og tryggðu sér oddahrinu. Þar reyndust HK mun sterkari og unnu hrinuna sannfærandi, 15-9.

Stigaskorið dreifðist mjög jafnt hjá báðum liðum en hjá HK var Elsa Sæný Valgeirsdóttir stigahæst með 17 stig auk þess sem Hanna María Friðriksdóttir og Laufey Björk Sigmundsdóttir bættu við 15 stigum hvor. Í liði Þróttar var Amelía Rún Jónsdóttir stigahæst með 15 stig en Tinna Rut Þórarinsdóttir og Eyrún Sól Einarsdóttir bættu við 14 stigum hvor.

HK er nú í öðru sæti deildarinnar með 3 sigra úr 5 leikjum en Þróttur Nes er enn án sigurs eftir fjóra leiki og situr í neðsta sæti deildarinnar.

Karlamegin var einnig mikil spenna og voru allar hrinur leiksins spennandi. Gestirnir úr Neskaupstað höfðu yfirhöndina alla fyrstu hrinuna en munurinn varð þó aldrei meiri en þrjú stig. HK jafnaði 20-20 undir lok hrinunnar en Þróttarar gáfu þá í og unnu hrinuna 22-25.

Í annarri hrinu byrjuðu Þróttarar mjög vel og lið HK átti engin svör við góðri hávörn liðsins. Þegar Þróttur náði 2-8 forystu vaknaði HK til lífsins og jafnt var 10-10. Mikið jafnræði var með liðunum það sem eftir var af hrinunni en undir lokin voru það HK sem sigu fram úr og unnu hrinuna 25-22.

Eins og hinar hrinurnar var sú þriðja jöfn en HK hafði nokkurra stiga forystu stærstan hluta hennar. Seint í hrinunni skoraði HK 5 stig í röð og vann hrinuna 25-18 og náði þar með yfirhöndinni í leiknum, 2-1 yfir. Fjórða hrinan var ótrúleg og virtist hún aldrei ætla að enda. HK byrjaði vel en Þróttur tók fljótlega forystuna og leiddi mest með fjórum stigum. HK náði að minnka muninn og jafnaði HK 20-20 og þá tók við æsispennandi kafli.

Liðin skiptust á stigum heillengi og oftast voru það Þróttarar sem leiddu og áttu möguleika á því að klára hrinuna. Áfram hélt leikurinn þó og höfðu Þróttarar 33-34 forystu undir lok hrinunnar. Þá gerði liðið þrenn mistök í röð og HK vann þar með hrinuna 36-34. Mikil spenna og frábær skemmtun. HK vann leikinn því 3-1 og er enn ósigrað í deildinni.

Valens Torfi Ingimundarson var stigahæstur hjá HK með 19 stig en Janis Novikovs og Elvar Örn Halldórsson skoruðu 14 stig hvor. Miguel Angel Ramos Melero var stigahæstur Þróttara með 17 stig en Galdur Máni Davíðsson skoraði 15 stig, þar af 6 úr hávörn.

HK er eins og áður sagði ósigrað en liðið hefur unnið alla fimm leiki sína. Tveir hafa þó unnist í oddahrinu og liðið er því með 13 stig á toppi deildarinnar. Þróttur Nes er í þriðja sæti deildarinnar með 7 stig en þeir hafa unnið tvo af fjórum leikjum sínum.

Bæði lið Þróttar mæta Aftureldingu í Mosfellsbæ helgina 2.-3. nóvember en kvennaliðið spilar einn leik á laugardeginum á meðan að karlarnir spila báða daga. Kvennalið HK mætir KA á Akureyri og fer sá leikur fram miðvikudagskvöldið 6. nóvember. Karlalið HK mætir hins vegar Álftanesi í toppslag Mizunodeildar karla þann 1. nóvember og fer hann fram á heimavelli Álftnesinga.