[sam_zone id=1]

HK hafði betur í tvíhöfða gegn Þrótti Nes

HK og Þróttur Neskaupstað mættust í dag í bæði Mizunodeild kvenna og karla en leikið var í Fagralundi í Kópavogi.

Fyrri leikur dagsins var viðureign liðanna í kvennaflokki. HK hafði betur í þeim leik 3-0 (25-12, 25-18, 25-19). HK byrjaði leikinn af miklum krafti en Matthildur Einarsdóttir kom HK í 3-0 með þremur stigum beint úr uppgjöf. HK hélt töluveðri forystu í hrinunni en munur liðanna var mikill. Það var töluvert meira jafnræði á liðunum í annarri hrinu en þó var HK með yfirhöndina alla hrinuna. Þriðja hrina leiksins var sú jafnasta lengst framan af. Liðin skiptu með sér stigum allt fram í stöðuna 17-17 en þá setti HK allt í botn og kláraði hrinuna 25-19. Sara Ósk Stefánsdóttir leikmaður HK skoraði 4 stig beint úr uppgjöf á lokakafla leiksins.

Stigahæst í leiknum var Sara Ósk Stefánsdóttir með 14 stig þar af 6 beint úr uppgjöf. Stigahæst hjá Þrótti var Amelía Rún Jónsdóttir með 10 stig.

Liðin mætast að nýju á morgun í Fagralundi kl 11:30.

Næst á dagsskrá var viðureign liðanna í karlaflokki en þar hafði HK betur 3-2 (25-23, 25-15, 20-25, 17-25, 15-3. HK byrjaði leikinn vel og komst yfir 2-0 í hrinum en eftir nokkuð jafna fyrstu hrinu þá áttu HK í litlum vandræðum með gestaliðið í annarri hrinu en þar var HK með töluvert forskot út hrinuna. Þróttur Nes náði hinsvegar að snúa við blaðinu í næstu tveimur hrinum og jafna leikinn 2-2. Eftir nokkuð jafna þriðju hrinu þá klikkuðu HK menn á uppgjöf sem veitti Þrótti Nes kjörið tækifæri til að koma sér inní leikinn. Þróttur setti allt sitt púður í fjórðu hrinu en þjálfari liðsins Raul Rocha tryggði Þrótti stig úr leiknum með góðu stigi úr uppgjöf.

Það var hinsvega allt púður farið úr gestaliðinu í oddahrinunni en þar bauð Lúðvík Már Matthíasson uppá flugeldasýningu og kom HK í 10-0 nánast uppá sitt einsdæmi. Lúðvík setti góða pressu á Þrótt með sterkum uppgjöfum og skoraði hann 3 stig úr uppgjöf á þessum frábæra kafla HK. Eins og tölurnar gáfu til kynna þá var von Þróttar um sigur í leiknum afar lítil eftir að hafa lent 0-10 undir, hrinan endaði með sigri HK 15-3 og tryggði HK sér því sigur i leiknum.

Stigahæstur í leiknum var Jesus M. Montero Romero leikmaður Þróttar með 21 stig. Stigahæstur í liði HK var Andreas Hilmir Halldórsson með 14 stig.

Liðin mætast að nýju á morgun kl 14:00