[sam_zone id=1]

Álftanes vann Vestra

Álftanes heimsótti nýliða Vestra í Mizunodeild karla í dag og var leikurinn fyrsti heimaleikur Vestra í efstu deild.

Fyrir leikinn hafði Vestri leikið tvo leiki og tapað þeim báðum 3-0 en Álftnesingar höfðu unnið einn leik og tapað einum. Mason Casner var kominn í lið Álftaness en Antonio Fernándes Ortiz kom inn í lið Vestra fyrir Marc Marín Mateu sem hefur yfirgefið liðið.

Í upphafi fyrstu hrinu var nokkuð jafnræði með liðunum en fljótlega tóku Álftnesingar forystuna. Þeir juku svo forystuna mikið undir lok hrinunnar og unnu hana sannfærandi, 16-25. Önnur hrina var jöfn stærstan hluta hennar en aftur tóku gestirnir völdin undir lokin. Í stöðunni 17-18 kom frábær kafli Álftnesinga sem unnu hrinuna 18-25 og voru þar með komnir í þægilega stöðu, 0-2 yfir.

Álftanes tók öll völd í þriðju hrinunni og voru snemma komnir 3-12 yfir. Um miðja hrinuna kom hins vegar góður kafli hjá liði Vestra þar sem að Hafsteinn Már Sigurðsson skoraði 4 ása og heimamenn minnkuðu muninn í 7 stig. Róbert Karl Hlöðversson svaraði því hins vegar með tveimur ásum fyrir Álftanes og gestirnir unnu hrinuna 15-25. Álftanes vann leikinn því 0-3 og er nú í þriðja sæti deildarinnar með tvo sigra úr þremur leikjum.

Álvaro Cunedo González González var stigahæstur í liði Vestra með 5 stig en Mateusz Klóska og Hafsteinn Már Sigurðsson bættu við 4 stigum hvor. Í liði Álftaness var Austris Bucovskis stigahæstur með 13 stig en Mason Casner og Róbert Karl Hlöðversson bættu við 10 stigum hvor. Þar af skoraði Mason 7 stig úr hávörn og Róbert og Austris skoruðu samanlagt 10 stig beint úr uppgjöf.

Lið Vestra er enn á botni deildarinnar og hafa ekki unnið hrinu í fyrstu þremur leikjum sínum. Liðin mætast aftur á morgun og hefst sá leikur klukkan 13:00 í íþróttahúsinu Torfnesi, Ísafirði.